Í SUMAR mun Heimskór æskunnar (The World Youth Choir) starfa í júlímánuði. Kórfélagar hittast í Mílanó á Ítalíu 9. júlí og dveljast þar í tvær vikur við æfingar og tónleikahald.

Í SUMAR mun Heimskór æskunnar (The World Youth Choir) starfa í júlímánuði. Kórfélagar hittast í Mílanó á Ítalíu 9. júlí og dveljast þar í tvær vikur við æfingar og tónleikahald. Síðan verður kórinn á tónleikaferða-lagi á Ítalíu, í Frakklandi, Belgíu og Þýskalandi þar sem ferðinni lýkur í Frankfurt 31. júlí.

Stjórnendur kórsins í sumar verða Peter Broadbent frá Englandi og Gunnar Eriksson frá Svíþjóð.

Kórfélagar verða sjálfir að bera kostnað af ferðinni milli heimalands og upphafs- og lokastaða ferðarinnar (Mílanó, Frankfurt). Íslenskum kórsöngvurum á aldrinum 17-26 ára gefst kostur á að þreyta inntökupróf í Heimskórinn um miðjan mars. Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri veitir nánari upplýsingar (thorgerdur @mh.is).

Heimskór æskunnar (The World Youth Choir) var stofnaður árið 1989. Kórinn hefur starfað einn mánuð á hverju sumri og alltaf á ólíkum stöðum í heiminum. Kórfélagar eru 80 talsins á aldrinum 17-26 ára og eru valdir úr hópi þúsunda umsækjenda hvaðanæva úr heiminum. Þeir þurfa að hafa mjög góða kunnáttu í nótnalestri og raddbeitingu ásamt reynslu í kórsöng og kórstarfi. Nokkrir íslenskir kórsöngvarar hafa við góðan orðstír sungið með Heimskór æskunnar.