MORGUNBLAÐINU hefur borist yfirlýsing vegna frétta um að enn ríki óvissa um framtíð Listdansskóla Íslands. Yfirlýsingin er frá Dansmennt ehf. og undir hana skrifa Ástrós Gunnarsdóttir og Lauren Hauser.

MORGUNBLAÐINU hefur borist yfirlýsing vegna frétta um að enn ríki óvissa um framtíð Listdansskóla Íslands. Yfirlýsingin er frá Dansmennt ehf. og undir hana skrifa Ástrós Gunnarsdóttir og Lauren Hauser.

"Menntamálaráðuneytið, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Dansmennt ehf. undirrituðu fyrr í vetur sameiginlega viljayfirlýsingu um samstarf í listdansnámi á framhaldsskólastigi. Tilgangur samstarfsins er mjög skýr. Í fyrsta lagi vilja málsaðilar tryggja að Listdansskóli Íslands muni starfa áfram um ókomna tíð þó svo að rekstrarfyrirkomulagi verði breytt. Í öðru lagi er alger skilningur á að ekki má verða misfella í námi þeirra sem nú þegar stunda listdansnám við skólann. Í þriðja lagi munu allir samstarfsaðilarnir tryggja að gæði þess náms sem boðið verður í skólanum í framtíðinni verði ekki minna en verið hefur hingað til.

Vinna við endurskoðun námsskrár fyrir framhaldsskólastig hefur staðið yfir í allan vetur og sér nú loks fyrir endann því starfi. Mjög hefur verið vandað til námskrárvinnunnar og hún því tekið heldur meiri tíma en til stóð í upphafi.

Sökum þessarar tafar hefur ekki verið mögulegt að ljúka gerð fyrirhugaðs samstarfssamnings og þar af leiðandi hefur skapast óvissa meðal nemenda, foreldra, kennara og annarra þeirra sem hagsmuna hafa að gæta í að starfsemi Listdansskólans verði sem allra öflugust þegar næsta skólaár hefst.

Vegna þessarar óvissu vill Dansmennt ehf. koma eftirfarandi á framfæri:

1. Dansmennt ætlar sér, í samstarfi við menntamálaráðuneyti og Menntaskólann við Hamrahlíð, að reka Listdansskóla Íslands af þrótti og aga.

2. Öflugur Listdansskóli Íslands er grundvöllur áframhaldandi þróunar listdans á Íslandi. Dansmennt gerir sér grein fyrir að skólinn er fjöregg dansmenningar landsins.

3. Um leið og ný námsskrá fyrir framhaldsskólastig er samþykkt mun vinnu við skipulagningu næsta skólaárs flýtt sem mest má verða. Stefna Dansmenntar er að ráða hæfustu listdanskennara landsins til starfa auk þess að fjölga heimsóknum gestakennara og auka samstarfið við aðrar listdansstofnanir.

4. Tryggt verður að engin misfella verði í námi þeirra nemenda sem nú eru við Listdansskóla Íslands. Þetta á bæði við nemendur á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.

5. Boðið verður uppá nám þar sem gæðakröfur verða í samræmi við nýja námsskrá án þess að kostnaður við rekstur skólans hækki. Ekki er ætlunin að hækka skólagjöld frá því sem nú er enda hefur menntamálaráðherra ítrekað lofað að framlag ríkisins til framhaldsskólanemenda verði ekki skert.

Það er ósk aðstandenda Dansmenntar að gott samstarf náist við nemendur, kennara og foreldrafélag um að gera góðan skóla enn betri. Dansmennt fagnar áhuga allra þeirra sem eiga sér það markmið."