Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka svarar Staksteinum Morgunblaðsins: "Ef marka má móttökurnar sem andmælendur skoðana blaðsins mættu í þessu máli þurfum við víst ekki lengur á dyggðum að halda."

MORGUNBLAÐSMENN eru í stríðsleik. Aldeilis óverðskuldað er mér veittur sá heiður að verma Staksteinabekk blaðsins þann 21. febrúar, vegna greinar sem ég skrifaði nýlega í blaðið. Ekki amast ég við því, tel það koma sér vel að fá að betrumbæta frussið sem fór um "send"-takkann á tölvunni minn í síðustu viku. Sýnist það líka vilji blaðsins að þessi tangó verði tekinn ögn lengra. Það er hins vegar óþarfi af blaðinu að láta sem það sé fórnarlamb ómaklegra árása. Blaðið hefur rétt á að hafa þær skoðanir sem það kýs. En það á líka að geta séð fyrir að þær skoðanir falli ekki að allra smekk. Það sem ég gerði fyrst og fremst athugasemd við í grein minni var ógestrisnin í garð fólks sem þegið hafði pláss á síðum blaðsins til að tjá skoðanir sínar.

Morgunblaðið hefur fjölmargar leiðir til að koma skoðunum sínum á framfæri. Staksteinar, Reykjavíkurbréf og leiðarar eru hinn opinberi vettvangur skoðana blaðsins, en auk þess á það þess kost að flytja fréttir (eða fela þær), taka viðtöl og birta myndir á hverri einustu síðu til að styðja þessar skoðanir. Í því máli sem hér um ræðir, þ.e. frumvarpi til laga um réttindi samkynhneigðra, hafa komið upp ágreiningsmál. Ágreiningsmál sem ekki eru flokkspólitísk. Hefur umræðan í þjóðfélaginu verið á ýmsan veg, á meðan stuðningur Morgunblaðsins hefur verið á einn veg: með frumvarpinu og breytingartillögunni við það.

Þegar frumvarpið er skoðað kemur í ljós að það hefur víðtæk áhrif. Það er eitt af þessum fyrirbærum sem kallast bandormur. Mikið til tittlingaskítur sem miðar að því að má agnúa af og leiðrétta orðalag sem eflaust hefur verið til trafala frá því lög um staðfesta sambúð samkynhneigðra voru sett 1996. Stórfelldustu breytingarnar vísa inn í barnalög, lög um ættleiðingar og lög um tæknifrjóvgun.

Biskup Íslands hefur bent á að hugsanlega sé fullgeyst farið í lagasetninguna um ættleiðingar og tæknifrjóvgun og ber fyrir sig varnaðarorð fyrrverandi umboðsmanns barna sem hefur haft umsögn um málið. Fleiri hafa tekið undir hans orð. Ritari Reykjavíkurbréfs kýs að hæðast að andmælum biskups og væna hann um að vilja hrekja lesbíur til óyndisúrræða, með öðrum orðum, að biskup sé bæði skilningslaus og fordómafullur í þeirra garð. Hvernig getur ritari Reykjavíkurbréfs talað um opinn "debat" þegar hann getur sjálfur ekki rætt þetta á kurteisislegum nótum?

Breytingar á þessum lögum hafa í för með sér afkynjun sem þurrkar út kunnugleg hugtök eins og karl og kona og flytja inn í tungumálið bastarða eins og "foreldrar hvors foreldris arfleifanda um sig". Til að gera svona ambögur skiljanlegar þarf orðabók. Fyrir þá sem ekki gripu strax merkingu orðanna, þá er hér átt við ömmur og afa barna (arfleifandann sjálfan), þ.e. móður- og föðurforeldra. Náttúrulegum feðrum farnast ekki betur í frumvarpinu, enda þykir nú sjálfsagt að sparka í þá hvenær sem færi gefst. Frumvarpið leggur til að í 25. gr. barnalaga verði sú breyting gerð að: a. Í stað orðsins "föður" komi: foreldri. b. Í stað orðsins "barnsföður" komi: hitt foreldrið og í stað orðsins "mann" komi: foreldri. Þetta er gert til að koma þessari og öðrum álíka kyndugum setningum inn í lögin: "Kona sem móðir lýsir yfir að sé foreldri barns verður ekki skráð foreldri barns nema 2. mgr. 6. gr. eigi við." Var virkilega ekki hægt að koma þessu svo fyrir að allir gætu staðið keikir?

Staksteinahöfundur segir blaðið ekki vilja banna neinar skoðanir. Engu að síður eru réttmætar skoðanir þeirra sem bent hafa t.d. á merkingartilfærslu hugtaksins hjónabands, gangi breytingarfrumvarpið eftir, spottaðar á háðuglegan hátt. Ég vil benda þeim sem vilja kynna sér trúarhefðina að baki vígsluathöfn kirkjunnar, án túlkunar Morgunblaðsins, á grein prófessors Einars Sigurbjörnssonar sem birtist í blaðinu 21. febrúar. Hana má nálgast á heimasíðu Háskóla Íslands.

Svo virðist sem orðasambandið "staðfest sambúð" sé orðið eins konar hrakyrði í umfjöllun samkynhneigðra og stuðningsmanna þeirra. Þetta form sambúðar hefur fjöldinn allur af fólki fært sér í nyt, enda gefur það réttarstöðu hjóna. Þetta er það sem einu sinni var kallað að láta pússa sig saman hjá sýslumanni og þótti bæði handhægt og gott. En rétttrúnaðurinn lætur ekki að sér hæða. Og samkynhneigðir hafa látið nota sig í baráttu fjölmargra samtaka, söfnuða og "sértrúarhópa" sem eiga það eitt að markmiði að knésetja kirkjuna. Ritari Reykjavíkurbréfs tekur þátt í því þótt í niðurlagi pistils síns lýsi hann því yfir, af einskærri rausnarsemi, að hann telji þjóðkirkjunni frjálst að taka sinn tíma til að ákveða hvort hún gefi saman samkynhneigða eða ekki. Hann leynir þó ekki hinu að kirkjan megi bara komast að einni niðurstöðu. Að öðrum kosti, "exodus".

Morgunblaðið hefur boðið almennum lesendum að halda uppi umræðum um þjóðmál og aflað sér nokkurrar sérstöðu fyrir. Þar er blaðið í hlutverki gestgjafans. Gestrisni þótti einu sinni höfuðdyggð á Íslandi. Ef marka má móttökurnar sem andmælendur skoðana blaðsins mættu í þessu máli þurfum við víst ekki lengur á dyggðum að halda.

Höfundur er lífeindafræðingur.