Möguleikar í ágræðslu eru ótrúlega fjölbreyttir.
Möguleikar í ágræðslu eru ótrúlega fjölbreyttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölgunaraðferðir plantna eru margvíslegar og hafa garðyrkjumenn fylgst með aðferðum plantna í náttúrunni í gegnum tíðina og reynt að tileinka sér þessar aðferðir í framleiðslu sinni á plöntum.
Fjölgunaraðferðir plantna eru margvíslegar og hafa garðyrkjumenn fylgst með aðferðum plantna í náttúrunni í gegnum tíðina og reynt að tileinka sér þessar aðferðir í framleiðslu sinni á plöntum.

Ágræðsla er fjölgunaraðferð sem gengur út á það að lítil grein af sérstakri plöntu er grædd ofan á rót af annarri plöntu og upp vex ný planta samsett úr tveimur eða jafnvel fleiri plöntum. Talið er að ágræðsluaðferðin eigi uppruna sinn að rekja til þess að menn tóku eftir því að þar sem tré standa þétt saman geta greinar tveggja mismunandi einstaklinga vaxið saman ef greinarnar eru fast upp við hvora aðra og hreyfast ekki mikið. Vitað er að Kínverjar vissu heilmikið um ágræðslu löngu fyrir Kristsburð og Rómverjar voru eldklárir í ágræðslu. Þeir notuðu ágræðsluaðferðina meðal annars á ólífutré en þau eru alræmd fyrir það hversu erfitt er að fjölga þeim kynlaust. Á miðöldum jukust vinsældir ágræðslunnar til muna í kjölfar landafundanna miklu og gríðarlegra flutninga á plöntuefniviði milli heimsálfa en smám saman varð ljóst að þessar fjölgunaraðferðir væru sérstaklega heppilegar við fjölgun aldintrjáa.

Til eru ótal aðferðir við ágræðslu. Neðri hluti plöntunnar, sá sem myndar rótakerfið og hugsanlega neðri hluta stofnsins, kallast grunnstofn en litla greinin sem grædd er ofan á grunnstofninn nefnist ágræðslukvistur. Nauðsynlegt er að skera plöntuhlutana þannig til að skurðir grunnstofns og ágræðslukvists passi saman. Þessir plöntuhlutir þurfa einnig að vera skyldir hvor öðrum því annars geta þeir ekki vaxið saman. Það er til dæmis ekki hægt að græða saman í eina plöntu appelsínur og epli eða greni og birki en hins vegar er hægt að hafa margar mismunandi gerðir af eplum á saman trénu.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að nota ágræðslu en ekki einhverja aðra, ódýrari fjölgunaraðferð. Sumum tegundum er erfitt eða jafnvel ómögulegt að fjölga á annan hátt, hægt er að fá fram plöntur sem þola erfiðari aðstæður en ágræðslukvisturinn einn og sér þolir og svo er þetta einkar sniðug leið til að framkalla öðru vísi vaxtarlag hjá plöntum. Eins og meðfylgjandi mynd gefur til kynna eru möguleikarnir í ágræðslunni ákaflega fjölbreyttir.

Ágræðsla er ekki mikið stunduð á Íslandi en þó er eitthvað um það að garðyrkjumenn fikti við hana. Hérlendis er einungis hægt að framkvæma þessa fjölgunaraðferð innandyra og er það þá gert að vetrarlagi eða snemma vors. Plöntuhlutarnir eru skornir til eftir kúnstarinnar reglum og þeir bundnir saman með sérstökum teygjum eða þunnu plasti. Ágræðslustaðurinn er svo þakinn með vaxi til að koma í veg fyrir að hann þorni upp áður en plöntuhlutarnir hafa náð að gróa saman. Eftir ágræðsluna þarf svo að geyma plönturnar í röku og hlýju umhverfi þar til ágræðslan hefur tekist.

Íslendingar hafa tekið ágræddum plöntum fagnandi og nota mikið af ágræddum skrautplöntum sem sést best á fjölda hengibaunatrjáa, garðagullregna, hengigullregna, eðalrósa og margra annarra ágræddra tegunda sem auðga flóru garða okkar. Ágræddar plöntur með sérstakt vaxtarlag eru notaðar stakstæðar og setja skemmtilegan svip á garðinn.

Guðríður Helgadóttir,

garðyrkjufræðingur.