Kátir meðlimir jaðarforlagsins Nýhils ásamt Björgólfi Guðmundssyni og Hermanni Jónassyni frá Landsbankanum við undirritun samningsins.
Kátir meðlimir jaðarforlagsins Nýhils ásamt Björgólfi Guðmundssyni og Hermanni Jónassyni frá Landsbankanum við undirritun samningsins. — Morgunblaðið/Sverrir
LANDSBANKINN og jaðarforlagið Nýhil skrifuðu í gær undir samning þess efnis að bankinn festi kaup á tæplega 1.200 eintökum úr bókaröðinni Norrænar bókmenntir sem ætlunin er svo að dreifa til bókasafna um allt land.

LANDSBANKINN og jaðarforlagið Nýhil skrifuðu í gær undir samning þess efnis að bankinn festi kaup á tæplega 1.200 eintökum úr bókaröðinni Norrænar bókmenntir sem ætlunin er svo að dreifa til bókasafna um allt land. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Nýhil er hér um að ræða um 130 áskriftir á níu bóka röð en fyrstu fjórar bækurnar komu út í nóvember á síðasta ári: Gamall þrjótur, nýir tímar eftir Örvar Þóreyjarson Smárason, Gleði og glötun eftir Óttar Martin Norðfjörð, Rispa jeppa eftir Hauk Má Helgason og Blandarabrandarar eftir Eirík Örn Norðdahl. Næstu fimm koma svo út í apríl á þessu ári en þær eru eftir Þórdísi Björnsdóttur, Steinar Braga, Val Brynjar Antonsson, Kristínu Eiríksdóttur og Ófeig Sigurðsson.

Viðar Þorsteinsson hjá Nýhil segir að Landsbankinn hafi frá upphafi tekið vel í hugmyndina að bankinn festi kaup á bókaröðinni.

"Útgáfan er þannig sniðin að það hefði reynst okkur mjög erfitt að koma henni áfram til almennings eftir þeim leiðum sem við höfum áður notað. Bæði höfum við ekki tæki né ráð til að dreifa bókunum í stórverslanir og svo hafa bókasöfnin af skiljanlegum ástæðum neyðst til að halda að sér höndum þegar það kemur að innkaupum á jaðarbókmenntum sem þessum. Stærstum hluta verkanna sem Landsbankinn kaupir, verður dreift til bókasafna úti á landi og við erum að vonum ánægð með að verkin nái til staða sem annars hefðu orðið útundan."

Hermann Jónasson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs, sem undirritaði samninginn fyrir hönd Landsbankans, segir að bankinn sé stoltur af því að geta stutt við bakið á ungum og framsæknum listahópum á borð við Nýhil og stuðla að því að höfundarverk þeirra séu sem flestum aðgengileg.