Margrét Björnsdóttir - viðbót Hjartkær vinkona okkar, Margrét Björnsdóttir, andaðist föstudaginn 4. júní eftir hart sjúkdómsstríð. Hún greindist með krabbamein innvortis í febrúar síðastliðnum. Kom það öllum á óvart, þar sem hún hafði lifað hófsömu og heilbrigðu lífi og stundað m.a. göngur og sund af dugnaði með vinkonum sínum, ekki síst Rósu konu minni. Hún virtist því hafa öll skilyrði til að eiga áratugi framundan. Því harðari þótti sá skapadómur, að læknavísindin gátu aðeins veitt stundargrið, en enga varanlega lífsvon. Margrét ákvað sjálf að ráði læknis að teygja ekki stríðið með eyðandi lyfjum, heldur taka sínu milda og ljúfa geði því, sem að höndum bæri. Allt var reynt til að kalla fram náttúrulegt eða andlegt kraftaverk og beitt öllum mætti hugarorku og fyrirbæna, sem ástvinir megna. En enginn má sköpum renna. "Því meðan hjörtun sofa býst sorgin heiman að, og sorgin gleymir engum" (Tómas). Hún hefði þakkað fyrir að lifa þetta eina sumar eftir örðugan vetur, og hún náði að sækja stúdentshóf yngstu dóttur sinnar, en þráði að komast í fermingu dótturdóttur vestur á Súgandafirði, hvað ekki gat orðið. Að lyktum bað hún þess ástvini sína, að þeir bæðu sér ekki lengri lífdaga, heldur líknar í andláti. Þó kveið hún endalokunum, eins og okkur hættir öllum til. Hún var nú einu sinni söngfuglinn ljúfi, "Öskubuskan", sem fegurst söng: "Bjartar vonir vakna í vorsins ljúfa blæ..." Nú verða þær vonir að vakna í öðrum heimi.

Margréti veittist sú náð að fá að þreyja þraut sína að mestu og deyja heima í ástríkri umönnun sinnar nánustu fjölskyldu og einstakra kærustu vinkvenna, ásamt þeim sérstaka hjúkrunarhópi, sem gerður er út til þeirrar þjónustu. Enginn fær þó fylgt jafnvel sínum allra nánasta ástvini alla leið að þeim dimmu dyrum né séð með honum, hvort handan þeirra kviknar ljós. Þar tekur trúin við. En einsemd þess, sem lýkur sínu lífi, leiðir Davíð okkur fyrir sjónir:

Langt inn í skóginn leitar hindin særð

og leynist þar, sem enginn hjörtur býr,

en yfir hana færist fró og værð.

En víkjum nú sögunni langt til baka, til góðra og glaðværra stunda, til uppvaxtar, þroska og manndóms. Margrét var fædd í Reykjavík 25. febrúar 1930 og ólst þar upp til fullorðinsára. Foreldrar hennar voru Björn M. Björnsson, bókbindari og veggfóðrari, afar listhagur maður, og kona hans Ágústa H. Hjartar, framreiðslukona. Hann rakti ætt og nafn til Björns Jónssonar biskups Arasonar, en hún var frá Vestfjörðum, svo sem ættarnafnið gefur til kynna. Börn þeirra urðu sjö: Áróra Svava (Róró), Ástráður Ingimar, bókbindari, Jónína (Ninna), Birna Ágústa, Margrét (Magga), Oddný Þóra (Naní) og Björn Helgi, prentari. Þær Róró, Ninna og Naní eru giftar í Ameríku, svo notuð séu þeirra hljómmiklu bernskugælunöfn, en Birna, sem var hlíft við endurnefningu, er ekkja og starfar hjá Lyfjaverslun ríkisins. Þau hjónin skildu, og varð því að vonum þröngt í búi og örðugt fyrir móðurina að koma hópnum til manns, en allt blessaðist það með samheldni. Margrét tók út sitt skyldunám í Miðbæjarskólanum, en átti sér sumardvöl hjá nöfnu sinni óskyldri að Læk í Holtum, en mér er sagt að hún sé frænka mín af Mýrum vestur. Hið fyrsta, sem ég vissi af þessari fjölskyldu, var að Birna, lagleg hnáta, kom til sumardvalar í Hólminn.

Margrét sýndi ótvíræða hneigð til mennta og var alla tíð ljóðelsk og söngheigð. Móðir hennar hafði yndi af ljóðum og var þekkt að því að fara með ljóð við ýmis tækifæri, en sú hneigð virðist ættlæg hjá Hjartarfólkinu ásamt ýmsum öðrum mannkostum. Sennilega stóð tæpt, að Margrét fengi færi á að sækja Gagnfræðaskólann í Reykjavík (Ingimarsskólann), en þar hóf hún góðu heilli nám á stofnári lýðveldisins 1944. Í félagi við þann ágæta árgang blómstraði hún og eðliskostir hennar, og þar bundust þau vináttubönd, sem haldið hafa æ síðan. Heil og hrein, hlý og ljúf en staðföst, féll hún vel inn í valda vinahópa jafnt sem árganginn í heild. Í 2. bekk stofnuðu þær stöllur fimm saman sönghópinn "Öskubuskur", sem var eyrna- jafnt sem augnayndi á samkomum skólans. Eftir skólann sungu Öskubuskur sig inn í hjörtu fólks víða á skemmtunum og eru í minnum hafðar enn í dag. Að lyktum voru þó aðeins eftir þær Margrét og Sigrún Jónsdóttir, tónrænn leiðtogi og gítarleikari hópsins, og syngja þær einar á plötunni, sem tekin var upp með nafni hópsins. Þannig eru raddir þeirra geymdar eftirtímanum í frábærlega smekkvísri túlkun.

Annar vinkvennahópur var þá að myndast, einkum í 3. bekk, sem varð stofninn að saumaklúbbi Margrétar og Rósu konu minnar Guðmundsdóttur, ásamt Elínu Guðjónsdóttur og Soffíu (Stellu) Haraldsdóttur úr sama árgangi, en við bættust úr Kvennaskólanum Erla heitin systir Stellu, Sólveig Jónsdóttir frænka þeirra og Guðrún (Dídí) Högnadóttir. Um sama leyti hóf ég linnulausa ásókn í Rósu mína og kynntist því þessum hópi mjög vel og síðan mökum þeirra, og tel mér ævigæfu að eiga svo gott fólk að vinum.

Umræddur árgangur, sem brautskráðist frá Ingimarsskólanum 1947, hefur reynst sérstæður að félagslegu framtaki. Hann hefur haldið afmælishátíðir á fimm ára fresti með ferðum og öðru frumlegu sniði líkt og stúdentsárgangar. Níu manna nefnd hefur annast hátíðirnar, og var Margrét í nefndinni ásamt Elínu, en Hjálmar heitinn Ólafsson, áður kennari við skólann og síðar konrektor Hamrahlíðarskóla, var heiðursráðgjafi nefndarinnar.

Það var eins og Margréti væri allt til lista lagt, því að hún æfði einnig ballet og kom sem slík fram í ýmsum sýningum, einkum í revíusýningum Bláu Stjörnunnar og í Nýársnóttinni á vegum Þjóðleikhússins. Lengst og í vaxandi mæli skaraði hún þó fram úr í öllum hannyrðum, gat saumað á alla fjölskylduna og haft tekjur af saumaskap, þegar hún vildi svo við hafa. Til þess var tekið, að vandaðasti frágangur frá valinkunnum tískuhúsum var nákvæmlega eins og Margrét gerði kröfu til og ástundaði. Er fram leið, gat hún kennt vinnubrögðin börnum sínum og öðrum.

Mannsefnið varð fyrst á vegi hennar árið 1948, Sigurgeir Jónasson matsveinn og síðan bryti á Fossunum, glæsimenni og kappduglegur, skemmtinn vel og skarpur til umræðu og átaka, maður lífsnautna og lystisemda. Þau voru þannig í mörgu ólík, í sumu jafnvel beinar andstæður, og veldur stundum spennu, en ástin skerpist oft í brennidepli andstæðnanna. Þau gengu í hjónaband á tvítugsafmæli hennar í febrúar 1950. Sigurgeir var upprunninn í Garðinum, en var í móðurætt frá Eyrarbakka og grennd, en af Mýrum og Borgarfirði í föðurætt. Þeim Margréti varð fimm barna auðið, nokkuð strjált í tímanum, fyrst dætranna þriggja, og síðan eftir alllangt hlé tveggja sona. Fyrst kom Ágústa Rut árið 1951, nú starfsmaður Rafmagnsveitu Reykjavíkur, og á eina dóttur. Önnur varð Sigrún Margrét 1953, nú póstafgreiðslumaður á Suðureyri, gift Guðna Albert Einarssyni skipstjóra og útvegsmanni, og eiga þau þrjár dætur. Árið 1961 bættist svo þriðja dóttirin í hópinn, Halla, sjúkraliði og nýstúdent, í sambýli með Rúnari Gíslasyni lögfræðingi, og á hún tvo drengi. Vinafólkið hélt nú, að nóg væri komið, en þá bættust synirnir í hópinn, Sigurgeir Orri 1967, bókmenntafræðinemi og starfsmaður Flugleiða, og Jónas Björn 1968, sagnfræðingur, rithöfundur og blaðamaður, í sambýli með Rósu Guðbjartsdóttur, rithöfundi og fréttakonu. Barnabörnin eru þannig orðin sex að tölu. Ekki þarf að orðlengja, hve blíð og kærleiksrík Margrét var í hlutverki eiginkonu, móður og ömmu, og hve stórt skarð þar er nú fyrir skildi.

Starfsferill Margrétar varð að sjálfsögðu að lúta því, hvað aflögu var frá stækkandi heimili. Fyrst stundaði hún ritarastörf á lögfræðistofu Egils Sigurgeirssonar árin 1947-52. Með heimastörfum gat hún gripið í saumaskap, en eftir langt hlé tók hún upp símavörslu hjá Eimskip 1976-83. Það var svo meira í ætt við þjónustuhlutverk, er hún tók að sér starf leiðbeinanda á þjálfunarvinnustofu öryrkja, Örva, í Kópavogi árin 1983-88. Síðasta starf hennar var svo svipaðs eðlis, leiðsögn í hannyrðum fyrir aldraða í Sunnuhlíð í Kópavogi, ásamt umsjón með sölubúð vistheimilisins. Á öllum þessum stöðum gat hún sér hið besta orð fyrir starfshæfni og dygga þjónustu.

Margs er að minnast og margt að þakka frá næstum hálfrar aldar vináttu þess hóps, sem myndaðist um saumaklúbbinn, og sumt sérstaklega þeim Möggu og Geira. Samheldni var góð og gestrisni og hjálpfýsi af allra hálfu. Snemma mynduðust ýmsar hefðir, sem staðist hafa tímans tönn. Ein þeirra var að halda minnst árlega "foreldrafund", þar sem karlarnir máttu vera með, svo fremi sem hegðuðu sér skikkanlega. Önnur var útilega eða bústaðardvöl síðsumars, með hæfilegu svalli, og var þá oft látin nótt sem nam. Undruðust menn stórum úthald Geira, sem hafði vart lokið að svæfa þá síðustu, er hann var tekinn til við morgunverðinn "að hætti brytans", enda viðkvæði hans, að maður hefði nægan tíma til að sofa, þegar maður væri dauður. Þegar jeppaeign manna efldist, var á stundum efnt til óbyggðaferða, en löngu fyrr en svo varð kom Geiri sér upp Weapon-trukknum Guddu, sem tók mestallan lýðinn, við lítil þægindi en mikla yfirferð. Gönguferðir komu til skjalanna, þegar hætt var að eltast við börnin og aldurinn kenndi fólkinu gildi þess að teygja úr skönkunum. Og afmælin stækkuðu með aldrinum. Þau Geiri og Magga hafa gert marga góða og eftirminnilega veislu og glaðst innilega í góðgjörðum sínum, t.d. er þau héldu okkur hjónum kveðjuhóf við brottför til framhaldsnáms. Heimilisaðstaðan var góð, frá því þau frumbyggðu að Þinghólsbraut 7 í Kópavogi, en varð stórum glæsilegri, eftir að þau byggðu á ný í túnfætinum að kalla má og fluttu sig um set að Mánabraut 8. Góðvina glaðværð er mikils virði, en hitt þó öllu meira að hafa séð hvert annað valda skyldum sínum vel og koma ungviði sínu til manns og þroska. Ekki er heldur svo að skilja, að við höfum verið eini vinahópurinn þeirra, og við vitum, að í sólarlandaferðum með öðrum ferðafélögum áunnu þau hjónin sér sérstakar vinsældir. Margrét hugleiddi gildi vináttunnar og benti á lítið ljóð eftir Sigrúnu Gunnarsdóttur, sem birtist í Lesbókinni í mars, og má endir þess standa sem kveðja hennar til þess, sem les:

Vinátta,

Kærleikurinn í vinarmynd.

Þakkaðu Guði fyrir, þá bestu gjöf

sem þú færð og gefur

Við slíkar minningar munu vinir og vandafólk orna sér, þegar tíminn hefur læknað sárin. En nú er tími sorgar og saknaðar, því meiri sem mikils er misst. Eða eins og Tómas orðar það:

og ef til vill með trega skilst oss þá,

hve heimþrá vor er veröld þeirri bundin,

sem við eigum í nótt að deyja frá.

Þá hefnir sín að hafa margs að sakna.

Á strönd jarðlífsins standa eftir þau, sem hafa svo mikils að sakna og margt að trega. Við biðjum þeim huggunar og blessunar. Heitast þráum við að fylgja kærri vinkonu úr hlaði með máttugum fyrirbænum og blessunarorðum. Það gerum við best með því að fara með lokaerindið úr kvæði Tómasar "Í dauðans höll":

Hann tók þig í fang sér og himnarnir hófu

í hjarta þér fagnandi söng.

Og sólkerfi daganna svifu þar

um sál þína í tónanna þröng.

En þú varst sem barnið, er beygir kné

til bænar í fyrsta sinn.

Það á engin orð nógu auðmjúk til,

en andvarpar: Faðir minn!

Bjarni Bragi Jónsson.