Jón Þór Ólafsson
Jón Þór Ólafsson
Jón Þór Ólafsson fjallar um samskipti kynjanna: "En heimilið er ekki lengur griðastaður. Það er orðið vígvöllur þar sem barist er um heimilisstörf og þess háttar."

AFLIÐ sem býr í kvenréttindahreyfingunni hefur tryggt konum mörg þau réttindi sem þær eiga réttilega að hafa og enn má betur gera, en nú er þetta sama afl farið að kúga margar konur og leiða aðrar á villigötur.

Byltingin étur börnin sín

Margar ungar mæður sem vilja vera heimavinnandi og ala upp börnin sín, þora varla að segja frá því að þær séu ekki líka í námi eða vinnu. Þær fá oft spurninguna hvort þær séu "bara" að hugsa um barnið. Ímyndin er að sjálfstæðar konur fara út á vinnumarkaðinn. Það þykir ekki flott í dag að vera heimavinnandi móðir. Þetta er sorglegt virðingarleysi við hlutverk sem leggur grunninn að heilbrigðum einstaklingum og samfélagi, móðurhlutverkið. Gæti verið að aukin ofbeldishneigð ungs fólks megi að einhverju leyti rekja til vanræktra lyklabarna sem alin voru upp af sjónvarpi og tölvuleikjum?

Konur eiga rétt á því að velja sér störf sem þær vilja vinna og fá fyrir vinnuna sömu laun og karlmenn. Eiga þær að leggja jafnt af mörkum og karlmenn, en fá minna fyrir? Konur með sjálfsvirðingu sætta sig auðvitað ekki við slíkt.

Það eru ekki mörgum karlmönnum sem finnast rykfríar hillur og skínandi gólf það mikilvæg að þeir vilji eyða tíma sínum í slík þrif. Eiga þeir að leggja jafnmikið af mörkum og konur við að vinna verk sem þeir fá minna út úr? Karlmenn með sjálfsvirðingu sætta sig ekki við slíkt.

Til að fá fólk til að gera það sem það vill ekki gera þarf að þvinga það undir vald sitt; gera það að undirlægjum.

Vilja konur virkilega mjúka menn?

Rannsóknir sýna að á egglostímabilinu falla konur fyrir sterkum, óhefluðum karlmönnum og sjálfsöryggi er yfirleitt efst, og alltaf ofarlega, á listanum yfir það sem konur falla fyrir í fari karlmanna. Eflaust er samt til sú kona sem vill búa með manni sem er undirlægja. En þótt það sé þægilegt að eiga hlýðinn mann, spurðu sjálfa þig hve lengi þú munir haldast hrifin af undirlægju.

Kveikir undirlægja í þér?

Sjálfstætt fólk fer á eftir því sem það vill

Karlmenn vilja finna frið í faðmi elskunnar sinnar; finna að þar eigi þeir heima. En heimilið er ekki lengur griðastaður. Það er orðið vígvöllur þar sem barist er um heimilisstörf og þess háttar. Sjálfstæðir karlmenn sem sætta sig ekki við að sóa lífinu í rifrildi og vilja vernda tilvonandi börn sín fyrir því að alast upp við stríðsástand, leita þar til þeir finna konu sem finnst mikilvægara að veita fjölskyldu sinni griðastað en að rífast um heimilisverk; konu með fjölskyldufaðm, þar sem frið er að finna. Það er auðvelt að gleyma því sem við viljum í raun og fórna meiru fyrir minna.

Höfundur er nemi og virkur baráttumaður fyrir réttindum kvenna og gegn kynbundnu ofbeldi.