Eins sjálfsagt og það er að ríkja eigi jafnrétti milli kynjanna er ótrúlega erfitt að koma því á í reynd. Um allan heim eru konur kúgaðar og undirokaðar.

Eins sjálfsagt og það er að ríkja eigi jafnrétti milli kynjanna er ótrúlega erfitt að koma því á í reynd. Um allan heim eru konur kúgaðar og undirokaðar. Barátta kvenna fer fram á launamarkaði, en hún er líka háð gegn mansali og kerfisbundnum nauðgunum og morðum í stríði. Á heimasíðu samtakanna UNIFEM eru nokkrar sláandi staðreyndir um stöðu kvenna: "Konur og börn eru 80% flóttamanna heims. Konur vinna 2/3 hluta allra vinnustunda en eiga aðeins 1% eigna í heiminum og fá aðeins 10% af heimstekjum í sinn hlut. Konur framleiða og selja 3/5 hluta af fæðu í heiminum. Þriðja hver kona í heiminum verður á lífsleiðinni fórnarlamb kynbundins ofbeldis." Meira að segja í þeim löndum þar sem jafnréttisbaráttan hefur náð hvað lengst er staða kvenna óviðunandi. Jafnrétti ríkir lögum samkvæmt, en völdin eru að mestu leyti í höndum karla, hvort sem það er í stjórnmálum eða atvinnulífi.

Enn er það svo að það þykir frétt þegar kona verður forstjóri fyrirtækis, stjórnandi sinfóníu, forstöðumaður listasafns, eða er kjörin leiðtogi ríkis vegna þess að um konu er að ræða, eins og það sé ekki aðalatriði hvað viðkomandi einstaklingur hyggst gera, fremur en hvers kyns hann er. Það versta er hins vegar að það er frétt þegar kona kemst til æðstu metorða í stjórnmálum, viðskiptum og listheiminum vegna þess að þær eru svo fáar.

Dagurinn í dag, 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Hver er staðan í baráttunni? Samkvæmt tölum frá 200 til 2002 frá Alþjóðavinnumálastofnuninni í könnun sem náði til 63 ríkja er skipting launþega þannig að 39% eru konur, en 61% karlar. Þessi hlutföll skila sér hins vegar ekki til atvinnurekenda þar sem skiptingin er þannig að 21% eru konur og 79% karlar. Í þróuðum löndum hefur hlutur kvenna í lögmannastétt aukist og er nú 25% til 35%, en hlutfall kvenna meðal meðeigenda á lögmannsstofum er aðeins 5% til 15%.

Það hljómar mjög vel að geta haldið því fram að konur hafi aldrei verið fleiri á þjóðþingum. En hvert er hlutfallið? Konur eru nú 16,3% þeirra, sem sitja á þjóðþingum. Árið 1975 var hlutfallið 10,9%. Aukningin er sáralítil. Í þessum tölum leynist hins vegar gríðarlegur munur milli heimsálfa. Á Norðurlöndunum er hlutfall kvenna til dæmis í kringum 40% (33,3% á Íslandi), en í þingum arabalandanna 7,8%.

Svo kann að virðast sem konur séu nú í mikilli pólitískri sókn. Angela Merkel settist í fyrra í stól kanslara Þýskalands, í Chile var Michele Bachelet kjörin forseti í janúar og um svipað leyti tók Ellen Johnson Sirleaf við embætti forseta í Líberíu. Margir velta því nú fyrir sér hvort svo geti farið að tvær konur verði í framboði til forseta Bandaríkjanna eftir tvö ár, Condoleezza Rice og Hillary Clinton. Konur gegna hins vegar aðeins æðstu valdastöðu í 11 ríkjum um þessar mundir.

Mun það breytast? Því hélt Bernadette Chirac, eiginkona Frakklandsforseta, Jacques Chirac, fram þegar hún lýsti yfir stuðningi við pólitískan andstæðing manns síns, Segolene Royal, sem líklegt þykir að verði frambjóðandi franskra sósíalista í forsetakosningunum á næsta ári. "Í framtíðinni munu fleiri og fleiri konur skipa mönnum fyrir," sagði hún. "Það kann að verða erfitt fyrir þá, en þannig verður það. Tími kvenna er kominn."

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir í ávarpi í dag að alþjóðasamfélagið hafi loks gert sér grein fyrir því að helstu áskoranir tuttugustu og fyrstu aldarinnar snerti konur fyllilega jafnt sem karla, hvort sem um sé að ræða efnahagslega eða félagslega þróun, frið eða öryggi: "Og oft snertir þetta þær meira en karla. Það er því ekki aðeins eðlilegt heldur nauðsynlegt að konur skuli koma að ákvarðanatöku fyllilega til jafns við karla. Heimurinn er líka farinn að skilja að ekkert er vænlegra til að stuðla að þróun, heilbrigði og menntun en að auka áhrif kvenna og stúlkna. Og ég ætla að gerast svo djarfur að bæta við að ekkert sé lílegra til að hindra átök eða ná sáttum eftir að átökum lýkur."

Þetta er hárrétt hjá framkvæmdastjóranum. Þessi hugsun nær hins vegar ekki einu sinni inn fyrir veggi Sameinuðu þjóðanna. Í gær skrifuðu kvennahreyfingar víða um heim opið bréf til Annans þar sem lýst var yfir vonbrigðum og reiði vegna þess að jafnrétti kynjanna og aukinn hlutur kvenna í stofnunum Sameinuðu þjóðanna væru ekki höfð að leiðarljósi í umbótaáætluninni fyrir stofnunina. Tíu árum eftir að markmið kvennaráðstefnunnar hefðu verið sett fram væru konur aðeins settar til málamynda í nefndir og ráð og þeim fækkaði jafnvel í ábyrgðarstöðum innan samtakanna.

Er tal um jafnrétti kvenna ekkert annað en gluggatjöld, sem sett eru upp 8. mars, tekin niður aftur og pakkað með mölkúlunum þannig að hægt sé að nota þau aftur á næsta ári? Orð eru til alls fyrst og margt hefur áunnist í baráttu kynjanna, en hún gengur of hægt, allt of hægt.