Hulda Hákon Munir Kjarvals í porti Bananananas.
Hulda Hákon Munir Kjarvals í porti Bananananas. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
101 gallerí er opið fimmtudag til laugardags frá 14-17. Sýningu lýkur 15. apríl. Bananananas er opið fimmtudag til laugardags frá 15-17 og sunnudag frá 14-16. Sýningu lýkur 19. mars.

Hulda Hákon nam listir þegar Nýi expressjónisminn var hafður í hávegum á níunda áratug síðustu aldar. Ólíkt meirihluta kollega hennar sem leituðu til expressjónisma eða tjástíls, eins og hann þýðist yfir í Íslenska tungu, hreifst Hulda af höggmyndalistinni en gekkst samt við malerískum gildum. En höggmyndir og lágmyndir hennar eru jafnan grófmálaðar og hafa í sér hispursleysi expressjónismans. Ég hef lengi dáðst að frjálsleika í verkum Huldu sem jafnan virka óheft og blátt áfram. Hulda hefur verið á meðal vinsælli myndhöggvara landsins um árabil og um þessar mundir má finna tvær sýningar á verkum hennar í Reykjavík. Annars vegar í 101 gallerí og hins vegar í Bananananas. Sýningin í 101 galleríi nefnist "Ebita" (þýðir; Raunvirði) og ku listakonan hafa sótt innblástur sinn í dýraríkið og í bronsskúlptúr sem margir kannast við á hafnarbakka Reykjavíkur sem sýnir tvo sjómenn gá til veðurs.

Sýningin skiptist í texta eða prósa á veggjum sem ritaðir eru með gullmáluðu bronsi og kynjaverur eða hluti sem standa á gólfi. Eru höggmyndirnar hrárri en ég hef áður séð hjá listakonunni og litaðar með hvítum tónum. En glysgjarnir gylltir textar eru ágætis mótvægi við hráleikann þannig að hinn forni dúalismi Appolós og Díonysusar vegur þungt í heildarmyndinni.

Frásögnin er órökræn þannig að maður stýrir því nokkuð sjálfur hvert hún leiðir mann. Textar og fígúrur eru þá inngangur fyrir manns eigin fantasíur. Fyrir mitt leyti stendur draugalegt andrúmsloft sterkt upp úr sýningunni sem fékk mig til að hugsa til expressjónista á borð við Kathe Köllwitz og Edward Munch. Disney-yfirbragð sýningarinnar skilur hana aftur á móti frá dramatík gamla expressjónismans, minnir jafnvel á brúðumyndir Tim Burtons, þannig að ég fann mig í frekar barnslegum heimi, óraunverulegum og skemmtilegum. Einhversstaðar leynist þó hnyttin þjóðfélagsádeila í verkunum, t.d. um sjómennsku, hjátrú og viðskipti, sem kemur aftan að manni og ég verð að viðurkenna að ég er enn að reyna að fatta en grunar þó að ég fatti aldrei þar sem Hulda spilar á tilfinningalega upplifun frekar en rökræna túlkun.

Umfjöllunarefni Huldu á sýningunni í Bananananas, Munaskrá Kjarvals, er mun skýrara en í 101 gallerí og einskorðast við muni sem Jóhannes Kjarval heitinn átti og eru geymdir hjá Reykjavíkuborg, þótt ágreiningur sé um hver eigi þessa muni í dag. Hulda hefur kópérað skrásetningu hlutanna á MDF plötur og hengt upp í porti Bananananas. Eins og með textana í 101 galleríi virkar skriftin sem sjálfráð (gestural) teikning sem rammar inn rýmið. En innihald þeirra er á margan hátt ómerkileg skriffinska og er kómískt að hugsa til þess að prjónuð skóinnlegg úr ull, Muriel vindlakassi, naglbítur o.fl. sem Kjarval átti skuli skráð, skjalfest og geymt í einhverjum af 350 kössum eins og hvert annað menningarverðmæti. Máske gætu þessir hlutir nýst ef vinnustofa meistarans yrði endurgerð og gerð að safni. Það eru vissulega til fordæmi fyrir slíku. Má því líta á þennan gjörning Huldu sem tilraun til að gera portrettmynd af Kjarval en að sama skapi er hún að gera létt gys að goðsögninni.

Þótt sýningarnar tvær virki nokkuð ólíkar að sjá eru þær hvor um sig samheldin þannig að heildarmyndin steypist fyrst yfir mann og síðan fer maður að rýna í hvern hlut eða texta fyrir sig. Listakonunni tekst að skapa einstaka stemningu í hvorri sýningu fyrir sig. En kannski er það svo reimleikinn sem tengir þær að lokum saman, Eitthvað sem einu sinni var en lifir samt áfram sem draugar nútímans, ímynd, fantasía eða goðsögn.

Jón B.K. Ransu