19. mars 2006 | Tímarit Morgunblaðsins | 328 orð | 1 mynd

Lofar góðu

Andri Snær Helgason

Það er gaman að leika og fá að vera með öllu þessu fólki

— Ljósmynd: Brynjar Gauti
Andri Snær Helgason er 13 ára að verða 14, í 8. bekk Foldaskóla, og hefur leikið í sinni fyrstu kvikmynd, sem gert er ráð fyrir að verði sýnd innan tíðar.
Andri Snær Helgason er 13 ára að verða 14, í 8. bekk Foldaskóla, og hefur leikið í sinni fyrstu kvikmynd, sem gert er ráð fyrir að verði sýnd innan tíðar. Hann leikur hlutverk í Stelpunum á Stöð 2, í þáttum sem nú er verið að sýna, og svo hefur hann leikið í auglýsingum. "Þegar ég var tíu ára lék ég í appelsínauglýsingu," nefnir hann sem dæmi. "Í kvikmyndinni leik ég einmana strák sem á enga vini, nema einn fullorðinn mann. Það var mjög gaman, en samt svolítið skrýtið." Andri Snær segir það hafa verið frekar "augljóst" að setja sig inn í hlutverkið, því systir hans, Nína Dögg Filippusdóttir, leikur í myndinni. "Hún lék mömmu mína og hjálpaði mér, því hún þekkir mig svo vel, og því var þetta einhvern veginn svo auðvelt." Í Stelpunum hefur hann leikið í einum sjö atriðum, "alls konar hlutverk", segir hann. "Það er gaman að leika og fá að vera með öllu þessu fólki."

Andri Snær segir leiklistina "mjög skemmtilega" og gæti alveg hugsað sér að leika meira í framtíðinni. Uppáhaldsleikararnir eru að sjálfsögðu Nína Dögg og Gísli Örn, maður hennar, og "svo eru mjög margir fyndnir". En leiklistargyðjan er ekki það eina sem heillar. "Ég hef líka áhuga á fótbolta og tónlist og útivist og ferðalögum og alls konar. Ég er búinn að æfa fótbolta í sjö ár, æfi með Fjölni í Grafarvogi og er nú í 4. flokki eldri. Ég spila oftast hægri eða vinstri kant, en stundum fer ég fram," segir hann. Uppáhaldsliðin eru Chelsea, Fylkir og Fjölnir "og ÍBV er svolítið skemmtilegt líka". "Ég var að fá Sýn og horfi því mikið á fótbolta í sjónvarpinu og bíð mjög spenntur eftir heimsmeistarakeppninni," segir hann líka aðspurður. Andri Snær hefur lært á píanó frá því að hann var níu ára, er nú í "smá pásu", en byrjar líklega aftur, að eigin sögn. "Í framtíðinni langar mig til þess að verða fótboltamaður. Eða leikari. Ég er ekki alveg viss." | helga@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.