22. mars 2006 | Íþróttir | 880 orð | 1 mynd

"Ekki hættir"

Það ríkti að vonum mikil gleði í búningsklefa KR-inga eftir sigurinn á Snæfelli í gærkvöld. Þeir eru komnir í lokabaráttuna um Íslandsmeistaratitilinn ásamt Keflavík, Njarðvík og Skallagrími.
Það ríkti að vonum mikil gleði í búningsklefa KR-inga eftir sigurinn á Snæfelli í gærkvöld. Þeir eru komnir í lokabaráttuna um Íslandsmeistaratitilinn ásamt Keflavík, Njarðvík og Skallagrími. — Morgunblaðið/ÞÖK
"Ég vissi að "Nonni Mæju" myndi aldrei drífa að körfunni af þessu færi, það var aldrei hætta á að hann myndi jafna leikinn," sagði Pálmi Freyr Sigurgeirsson leikmaður KR eftir 67:64 sigur liðsins gegn Snæfelli í oddaleik í 8 liða...
"Ég vissi að "Nonni Mæju" myndi aldrei drífa að körfunni af þessu færi, það var aldrei hætta á að hann myndi jafna leikinn," sagði Pálmi Freyr Sigurgeirsson leikmaður KR eftir 67:64 sigur liðsins gegn Snæfelli í oddaleik í 8 liða úrslitum Iceland Express deildarinnar í körfuknattleik karla. Leikurinn var gríðarlega spennandi en KR-ingar náðu að halda sínu striki á lokakaflanum með Skarphéðin Ingason fremstan í flokki en hann geigaði ekki á síðustu fjórum vítaskotum leiksins og tryggði KR sæti í undanúrslitum - en þar mætir Njarðvík til leiks í fyrstu rimmuna gegn KR í "Ljónagryfjunni" í Njarðvík.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is
Eins og áður segir var lokakafli leiksins afar magnþrunginn og lágt stigaskor einkenndi þessa viðureign eins og fyrstu tvo leiki liðsins.

Jón Ólafur Jónsson leikmaður Snæfells, eða "Nonni Mæju" eins og flestir kalla drenginn var ansi nálægt því að jafna metin þegar rétt tæp sekúnda var eftir af leiknum en skot hans frá miðjum eigin vallarhelmingi fór framan á körfuhringinn hjá KR og skoppaði þaðan hátt á loft. En ekki vildi boltinn ofaní.

Jón Ólafur lék með KR á síðustu leiktíð og þekkir því innviði DHL-hallarinnar vel.

KR náði aldrei að slökkva alveg í vonarneista stuðningsmanna Snæfells á lokakafla leiksins og í stöðunni 65:61 náði bandaríski leikmaðurinn Nate Brown að skora þriggja stiga körfu og minnka muninn í eitt stig þegar rúmar 6 sekúndur voru eftir af leiknum. Skömmu áður hafði Fannar Ólafsson miðherji KR misnotað tvö vítaskot í röð og Nate Brown gerði slíkt hið sama er hann fékk tækifæri til þess að jafna leikinn í 63:63 þegar 13 sekúndur voru eftir.

Snæfellingar brutu á Skarphéðni Ingasyni í tvígang á lokakafla leiksins og eins og áður segir misnotaði hann ekki þau skot og tryggði KR -liðinu sæti í undanúrslitum.

Það verður seint sagt að leikir KR og Snæfells í 8 liða úrslitunum hafi verið áferðarfallegir en spennandi voru þeir allir. Spennustigið var greinilega hátt hjá báðum liðum í gær þar sem að KR-ingar fundu enga leið að körfunni í 1. leikhluta og skoruðu aðeins 12 stig gegn 17 stigum "Hólmara".

Ástandið lagaðist aðeins hjá KR þar sem jafnt var á með liðunum í hálfleik, 35:35.

Í upphafi síðari hálfleiks kom Fannar Ólafsson KR einu stigi yfir, 36:35, og var það aðeins í annað sinn sem KR hafði komist yfir í leiknum.

Eins og lýsingin á lokakaflanum hér á undan gefur til kynna gekk mikið á og eflaust hafa margir leikmenn Snæfellsliðsins átt erfitt með svefn í gærkvöldi. Misheppnaðar sendingar, slakur varnarleikur og ótímabær skot á lokakaflanum reyndust dýrkeypt þegar upp var staðið. Hinsvegar má ekki líta framhjá því að máttarstólpar Snæfellsliðsins, Ingvaldur Magni Hafsteinsson, Jón Ólafur Jónsson og Slobodan Subasic voru í villuvandræðum megnið af leiknum en aðrir leikmenn tóku við keflinu og gáfu ekkert eftir.

Brown magnaður í vörninni

Nate Brown skoraði ekki nema 9 stig í leiknum fyrir Snæfell en í varnarleiknum var hann alveg magnaður og gerði leikmönnum KR lífið leitt. Igor Beljanski átti fínan leik en það var farið að draga af kappanum í baráttunni gegn Fannari undir körfunni á lokakaflanum og munaði um minna.

KR-liðið leikur ekki glimrandi vel þessa dagana og margt sem þarf að laga í sóknarleik liðsins. Það vakti athygli að í upphafi síðari hálfleiks náði liðið fínni skorpu á meðan Bandaríkjamaðurinn Melvin Scott var utan vallar. En flæðið í sóknarleiknum er langt frá því að vera gott og stuðningsmenn liðsins þurftu af og til að öskra á leikmenn liðsins til þess að þeir fengju kjark til þess að skjóta á körfuna. Reyndar þurfti ekki að segja Ljubodrag Bogovac að skjóta á körfuna - hann sá alveg um það sjálfur með misjöfnum árangri.

Fannar Ólafsson og Skarphéðinn Ingason drógu vagninn gegn Snæfelli að þessu sinni og voru oft á tíðum þeir einu sem höfðu þor til þess að ljúka sóknum liðsins. Steinar Kaldal, Pálmi Freyr Sigurgeirsson og Niels Dungal geta miklu meira ef litið er á sóknarleikinn en þeir stóðu vörnina af festu.

Melvin Scott, bandaríski bakvörðurinn í liði KR, smellpassar ekki í leik liðsins sem stendur en KR-ingar geta huggað sig við að Scott skoraði sigurkörfuna á útivelli í öðrum leiknum undir lokin með ævintýralegri körfu. Scott virðist ekki vera með hlutverk sitt á hreinu og stundum horfir hann ekki á körfuna þegar færin gefast og stundum er hann að reyna að skjóta úr vonlausum færum. Scott hefur mikla hæfileika en það hefur ekki gengið vel að fá það fram í leikjum liðsins. Bogovac er einnig leikmaður sem er brokkgengur en hann skaut í gríð og erg í þann stutta tíma sem hann var inná en hinn hávaxni miðherji á eflaust eftir að nýtast vel gegn Njarðvíkingum í undanúrslitunum.

"Höfum harma að hefna"

"Við ætlum okkur ekkert annað en sigur gegn Njarðvík. Enda höfum við harma að hefna frá því í vetur er við hentum frá okkur 25 stiga forskoti gegn þeim á útivelli og töpuðum. Ég get ekki sagt að við höfum leikið vel í þessum þremur leikjum gegn Snæfelli en því má ekki gleyma að þeir eru mikið varnarlið sem erfitt er að eiga við. Ég held að við höfum leikið gegn þeim sjö sinnum í vetur og allir leikirnir hafa verið í þessum dúr. En ég hlakka til að takast á við Njarðvík og við erum langt frá því að vera hættir," sagði Pálmi Freyr.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.