23. mars 2006 | Innlendar fréttir | 198 orð | 1 mynd

Andlát

KJELL H. HALVORSEN

Kjell H. Halvorsen, sendiherra Noregs á Íslandi frá hausti 1999 til vors 2003, lést sl. laugardag, 18. mars, á sjúkrahúsi í Ósló. Kjell H. Halvorsen var fæddur í Noregi 4. maí 1946.
Kjell H. Halvorsen, sendiherra Noregs á Íslandi frá hausti 1999 til vors 2003, lést sl. laugardag, 18. mars, á sjúkrahúsi í Ósló.

Kjell H. Halvorsen var fæddur í Noregi 4. maí 1946. Hann lauk meistaraprófi í stjórnmálafræði frá Óslóarháskóla árið 1976 með alþjóðastjórnmál sem sérgrein. Hann kenndi sérgrein sína við Óslóarháskóla árin 1977-1983, en 1984 réðist hann til norska utanríkisráðuneytisins, alþjóðadeildar og starfaði að verkefnum við þróunaraðstoð og samskiptum við alþjóðlegar fjármálastofnanir til ársins 1989, þegar hann varð deildarstjóri alþjóðadeildar ráðuneytisins um hnattræn málefni, Sameinuðu þjóðirnar, mannréttindamál og flóttamannaaðstoð.

Kjell H. Halvorsen sat í mörgum stjórnum og ráðum fyrir norsk yfirvöld, m. a. stofnunum Sameinuðu þjóðanna, OECD, Alþjóðabankanum, og hafði yfirumsjón með þátttöku lands síns í kvennaráðstefnunni í Peking 1996.

Haustið 1999 var hann skipaður sendiherra Noregs á Íslandi og gegndi því embætti til vors árið 2003. Eftir heimkomuna gegndi hann störfum fyrir utanríkisráðuneytið.

Kjell eignaðist hér fjölda vina og kunningja. Hans mun verða lengi minnst á Íslandi vegna þess frumkvæðis að efna til útgáfu á sögu norskrar byggingarlistar á Íslandi, en hið mikla bókverk um það efni, "Af norskum rótum", kom út hérlendis árið 2003.

Kjell H. Halvorsen var kvæntur Solveig Halvorsen og eiga þau eina dóttur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.