25. mars 2006 | Innlendar fréttir | 244 orð | 1 mynd

Andlát

ÞÓRARINN INGI ÞORSTEINSSON

ÞÓRARINN Ingi Þorseinsson lést á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Fossvogi 23. mars síðastliðinn á 77. aldursári. Þórarinn Ingi eða Ingi eins og hann var oftast nefndur var fæddur í Reykjavík 24.
ÞÓRARINN Ingi Þorseinsson lést á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Fossvogi 23. mars síðastliðinn á 77. aldursári.

Þórarinn Ingi eða Ingi eins og hann var oftast nefndur var fæddur í Reykjavík 24. febrúar árið 1930, sonur hjónanna Þorsteins Þórarinssonar, vélstjóra og konu hans Þóru Einarsdóttur. Hann ólst upp í Reykjavík, en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og síðan prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Ingi fékkst við margvíslegan atvinnurekstur um ævina hér á landi og erlendis. Hann stofnaði ásamt föður sínum verslunina Evrest og kom einnig að rekstri prjónastofu á Akranesi og naglaverksmiðju í Borgarnesi áður en fjölskyldan flutti utan. Hann bjó fyrst í Englandi um árabil þar sem hann fékkst við ýmis viðskipti, en fluttist síðan til Afríku, þar sem hann bjó meðal annars í Tansaníu, á Mauritius og í Nairobí í Kenýa. Hann fékkst þar við margvíslega starfsemi og var meðal annars um fimm ára skeið aðalframkvæmdastjóri fyrir uppbyggingu og rekstri stærsta iðnfyrirtækisins í Tansaníu á þeim tíma. Hann var einnig aðalræðismaður Íslands í Nairobí í Kenýa er hann bjó þar. Ingi fluttist síðan aftur til Englands þar sem hann hafði aðsetur síðustu árin.

Ingi var þekktur frjálsíþróttamaður á sinni tíð og átti sæti í landsliðinu sem grindahlaupari. Hann tók meðal annars þátt í sigurferð Íslendinga til Ósló árið 1951 þegar bæði Norðmenn og Danir voru lagðir að velli. Hann var einnig brautryðjandi þegar körfuknattleikur ruddi sér til rúms hér á landi.

Kona Inga er Fjóla Þorvaldsdóttir og eignaðist hann tvo syni.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.