Hjörtur Bragi Sverrisson, mannréttindalögfræðingur og doktor í alþjóðasamskiptum, hefur áhuga á að sett verði á laggirnar einhverskonar sannleiks- og sáttanefnd í Kósóvó. Hjörtur starfaði fyrir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Kósóvó á árunum 2001-2004.
Hjörtur Bragi Sverrisson, mannréttindalögfræðingur og doktor í alþjóðasamskiptum, hefur áhuga á að sett verði á laggirnar einhverskonar sannleiks- og sáttanefnd í Kósóvó. Hjörtur starfaði fyrir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Kósóvó á árunum 2001-2004. — zzzz
Þrátt fyrir að tæp sjö ár séu liðin frá því að Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) tóku við yfirstjórn Kósóvóhéraðs í suðurhluta Serbíu, blasir við að sáttaumleitanir milli stríðandi fylkinga eru ennþá að miklu leyti í ólestri.

Þrátt fyrir að tæp sjö ár séu liðin frá því að Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) tóku við yfirstjórn Kósóvóhéraðs í suðurhluta Serbíu, blasir við að sáttaumleitanir milli stríðandi fylkinga eru ennþá að miklu leyti í ólestri. Stefnt er að því að í ár verði samið um framtíðarstöðu Kósóvó, en fyrstu beinu viðræðurnar milli leiðtoga Serba og Kósóvó-Albana hófust í Vínarborg í febrúar sl. Hjörtur Bragi Sverrisson mannréttindalögfræðingur hefur fjallað um kosti þess að stofnuð verði sannleiks- og sáttarnefnd um málefni Kósóvó. Hrund Gunnsteinsdóttir ræddi við hann.

Í samningaviðræðunum um framtíð Kósóvó leggur Martti Ahtisaari, sem leiðir viðræðurnar fyrir hönd SÞ, áherslu á að ræða fyrst "praktísk málefni", eins og fjármál og samvinnu sveitarstjórna, áður en framtíðarstaða Kósóvó verður rædd. Það eru svo sem skiptar skoðanir um það hvort yfirleitt einhver málefni varðandi svæðisstjórnun Kósóvó séu óviðkomandi framtíðarstöðu héraðsins. En nálgun Ahtisaaris er skiljanleg í ljósi samskipta serbneskra yfirvalda og heimastjórnarinnar í Kósóvó, því þessir tveir aðilar eru á öndverðum meiði um framtíðarstöðu héraðsins. Hingað til hafa þeir ekki viljað mætast augliti til auglitis til að ræða þetta mál. Stálin tvö hafa verið svo stinn að hið svokallaða alþjóðasamfélag hefur forðast að horfast í augu við þessa grundvallarspurningu, enda erfitt að sjá fyrir friðsama lausn.

Þau sjónarmið sem erfitt verður að sætta er krafa serbneskra yfirvalda um að Kósóvó verði hluti af Serbíu, en endurheimti einskonar sjálfstjórn líkt og það hafði til ársins 1989. Þá var héraðið svipt sjálfstjórn og serbnesk yfirvöld hófu ógnarstjórn gegn Kósóvó-Albönum sem leiddi til loftárása NATO á Serbíu. Kósóvó-Albanar taka þessar hugmyndir ekki í mál. - Þeir vilja fá sjálfstæði, punktur, basta. Ósættanlegar kröfur, segja sumir, á meðan aðrir færa rök fyrir því að jafnvel þótt samningar næðust um framtíðarstöðu Kósóvó á pappír, væri enn langt í land með að raunverulegar sættir og endanlegur friður kæmist á. Meira þurfi að koma til.

Í nýjasta hefti vefritsins Peace, Conflict & Development Journal fjallar Hjörtur Bragi Sverrisson, mannréttindalögfræðingur og doktor í alþjóðasamskiptum, um hugmyndir sínar um að sett verði á laggirnar einhverskonar sannleiks- og sáttanefnd í Kósóvó. Hjörtur starfaði fyrir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Kósóvó á árunum 2001-2004, þar sem hann kannaði grundvöllinn fyrir því að slík nefnd yrði sett á laggirnar. Þreifingar hans hafa leitt margt áhugavert í ljós varðandi uppbyggingarstarfið í Kósóvó og tilraunir til að samþætta ólík sjónarmið. Sjónarmið, sem segja má að séu sprottin upp úr sundurleitum hugmyndaheimum þar sem menn virðast sammála um fátt; sjónarmið sem eru ekki endilega byggð á heilögum sannleika. Það eru nefnilega áhöld um það hver sannleikurinn raunverulega sé. Í greininni, sem ber yfirskriftina Truth and Reconciliation Commission in Kosovo: A Window of Opportunity? segir Hjörtur þörfina fyrir sannleiks- og sáttarnefnd aldrei hafa verið meiri, nú þegar leiða á til lykta samningaviðræður um framtíðarstöðu héraðsins fyrir lok árs.

Á forsendum heimamanna

Þegar Hjörtur kom til Kósóvó árið 2001 sá hann að lítið hafði verið gert til að leiða saman aðila að átökunum og ræða sáttaumleitanir; tilfinningu fyrir réttlætingu, hefnd, fyrirgefningu, refsingu og sátt. "Þegar ég fór að tala um þetta sá ég hins vegar fljótlega að ég var ekki einn um að vilja skoða þetta. Ég sá líka að þetta var mjög viðkvæmt mál, alls ekki hentugt til opinberrar umræðu."

Hvað varðar framkvæmd á verkefninu sagðist Hjörtur sjá fyrir sér að sannleiks- og sáttanefndin yrði hluti af stærra ferli sem nú þegar á sér stað í Kósóvó sem fæli í sér að störf hennar yrðu fléttuð inn í réttarhöld yfir grunuðum stríðsglæpamönnum, lýðræðisuppbyggingu og fleira. Hann sagði það lykilatriði að Kósóvóbúar (öll þjóðarbrot) stýri ferlinu sjálfir, setji nefndina á laggirnar og þrói aðferðafræðina, jafnvel þótt verkefnið verði ekki "fullkomið" að mati alþjóðlegra stofnana.

"Það eru ýmsir möguleikar til staðar þegar svona nefnd er sett á laggirnar. Ákveða þarf hvaða völd hún hefur, hvaða tímabil hún skoðar, hvort einhver skilyrt sakaruppgjöf verði partur af henni og hvort hún geti nefnt nöfn, sem dæmi. Þetta er ekkert sem gerist á einni nóttu, þetta er margra ára vinna. En það er mikilvægt að Kósóvóbúar sjái nefndina sem sína eigin." Innan þessa ramma sagði Hjörtur stuðning alþjóðasamfélagsins hins vegar nauðsynlegan. "Þetta yrði dýrt fyrirtæki og krefst sérþekkingar, sem er ekki fyllilega til staðar í Kósóvó."

Hvaða viðbrögð hefurðu fengið við hugmyndinni?

"Þó að svona nefndir hafi verið stofnaðar víða, eru þær ekki það sem menn hugsa fyrst um þegar stríði er nýlokið. Hefndin stendur fólki miklu nær. Það vill líka sjá réttlætinu framgengt í gegnum dómskerfið, réttarhöld. Við ræddum þessar hugmyndir við fólk í Kósóvó, Serbíu, Bosníu og víðar. Serbar settu til að mynda upp sína eigin nefnd á sínum tíma. Sú nefnd var hins vegar svæfð þegar formaðurinn fór að undirbúa viðræður um hlutverk Serba í Srebrenica, það var nokkuð sem þótti ekki tímabært að ræða í Belgrad."

Hjörtur sagði viðlíka hugmyndir hafa verið uppi meðal ýmissa leiðtoga í Kósóvó haustið 1999, en þá hafi einnig verið talið of snemmt að setja þær í framkvæmd.

"En flestir sem ég talaði við voru jákvæðir, sumir mjög jákvæðir. Umræðan var ekki hvort, heldur hvernig. Sumir Kósóvó-Albanar sáu hins vegar slíka nefnd ekki fyrir sér fyrr en að sjálfstæði Kósóvó væri í augsýn. Einn vel þekktur andófsmaður sagði að eins og staðan væri, vildi hann ekki sættir, það yrði að halda hatrinu við, annars yrðu Kósóvó-Albanar ekki tilbúnir til að berjast þegar alþjóðasamfélagið gæfi Kósóvó aftur í hendur Serba. Aðrir sögðust ekki telja sannleiks- og sáttanefnd ganga í Kósóvó vegna þess að hatrið væri einfaldlega of mikið. Ég gef ekki mikið fyrir slíkt, í fyrsta lagi held ég að hatrið sé ekki eins djúpstætt og margir halda. Þar fyrir utan er nefnd sem þessi ekki fyrir fólk sem elskar hvert annað, heldur fyrir fólk sem hatar hvert annað."

Í greininni segir þú sannleiks- og sáttaferli vanta inn í umræður um framtíðarstöðu Kósóvó, því það sé margskonar "sannleikur" á sveimi um það hvað raunverulega gerðist í stríðinu. Að þá þurfi að ræða, sætta. Hvað áttu við með þessu?

"Það er gífurleg afneitun í gangi, bæði á meðal Serba og Albana um hvað gerðist í stríðinu og af hverju þetta stríð var háð. Afneitunin er nánast svo mikil að það er eins og menn séu að tala um sitthvort stríðið. Í öllum átökum þegar miðlun frétta hrynur og orðrómurinn tekur við, eru sögur smíðaðar bæði eftir bestu upplýsingum en einnig eftir hentugleika. Orðrómurinn verður síðan að sannleika og þannig byggja menn skoðun sína á "hinum". Sannleikurinn er því ekki bara samansafn staðreynda, heldur frekar túlkun á staðreyndum og orðrómum. Þetta ferli, hvernig staðreynd verður að sannleika, þarf að rífa niður og endurskoða, annars verður afneitunin ekki brotin niður. Og svo komum við, alþjóðasamfélagið, og segjum Albönum og Serbum hvernig allt gerðist og hverjum það sé að kenna, við vitum þetta allt vegna þess að við lásum bókina.

Alþjóðasamfélagið þarf því einnig að skoða hvernig það nálgast lausnir. Svona nefnd myndi safna saman staðreyndum um stríðið og ástæður þess, á trúverðugan hátt, til dæmis með vitnisburði fórnarlamba og þeirra sem frömdu glæpi. Þannig má draga úr orðrómum sem hafa umbreytt sér í staðreyndir um hvað "hinir" eru mikil illmenni og hvers vegna þeir séu réttdræpir."

Sjálfstæðisumræða Svartfjallalands gerir Serbum erfiðara fyrir

Við höfum talað um slíka nefnd í tengslum við þróun í átt til sjálfstæðis Kósóvó, en ef ákveðið verður að Kósóvó verði hérað innan Serbíu? Það er óneitanlega þrýstingur í þá áttina í ljósi þess að Svartfellingar, sem nú eru í ríkjasambandi við Serbíu, ætla að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu í maí næstkomandi um sjálfstæði frá Serbíu?

"Sjálfstæðisumræða Svartfjallalands gerir Serbum erfiðara fyrir, en Kósóvó skiptir þá meira máli. Ef ákveðið verður að Kósóvó verði hérað innan Serbíu er nokkuð ljóst að það verður annað stríð. Þá er líka mikilvægt að sannleiks- og sáttanefnd verði síðar sett á laggirnar. Í augum sumra Kósóvó-Albana eru flestir Serbar stríðsglæpamenn og eiga ekkert erindi í Kósóvó. Jafnvel þótt þeir séu fæddir þar og aldir upp, og hafi aldrei gert neinum mein. Hvernig getum við ætlast til að Serbar snúi aftur til Kósóvó þegar þessi skoðun er uppi? Hvers konar lýðræði getum við haft þegar meirihlutinn hatar minnihlutann? Hvernig stofnanir getum við byggt upp þegar minnihlutahópar fá ekki aðgang að þeim, eða er gert mjög erfitt fyrir? Get ég sem Serbi sent barnið mitt í skóla þar sem því er bannað að tala serbnesku og kennt að Serbar hafa að markmiði sínu að útrýma Albönum? Ef okkur tekst ekki að auka skilning á milli hópa og draga úr hatrinu þá er sagan að endurtaka sig.

Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að menn vilja ekki gefa Kósóvó fullt sjálfstæði, því menn treysta ekki Kósóvó-Albönum til að veita minnihlutahópum vernd. En ef Albanar myndu setja svona nefnd sem skilyrði fyrir sjálfstæði, - að þeir ætli að tryggja réttindi minnihluta með virkum hætti, myndi það styrkja þeirra röksemdafærslu og róa gagnrýnisraddir. En til þess þarf að vera einlægur vilji."

Þú segir flesta leiðtoga sem hafa reynt að byggja "réttlátt samfélag" að loknum vopnuðum átökum, viðurkenna nauðsyn þess að sáttaumleitanir séu miðlægar í uppbyggingarstarfi eftir stríð. Svo segirðu "hins vegar getur verið erfitt að selja gildi fyrirgefningarinnar og pólitísk skilaboð sem því fylgja". Geturðu útskýrt þetta nánar?

"Eftir átök sem þessi er þjóðernishyggja oft miklu betri söluvara en sættir. Þú færð fleiri atkvæði fyrir að boða hefndir en að reyna að segja fólki sem hefur horft upp á ættingja sína myrta og hús sín brennd að nú verði allir að kyssast og vera vinir. Stjórnmálamenn missa ekki bara atkvæði fyrir slíkan boðskap, þeir missa líf sitt. Eingöngu mjög sterkir leiðtogar geta sent út slíkan boðskap. Ég man um morguninn þegar átöku brutust út í Kósóvó í mars 2004, þá kepptust leiðtogar Kósóvó-Albana um að réttlæta aðgerðirnar, sem eðlilega útrás fyrir reiði og brostna þolinmæði. Nema Ramush Haradinaj, síðar forsætisráðherra, hann skar sig úr og bað menn um að sýna stillingu, ofbeldi væri ekki rétta leiðin. Sama er að segja núna um Agim Ceku. Hluti af ræðunni hans, þegar hann tók við embætti forsætisráðherra Kósóvó nú á dögunum, var á serbnesku þar sem hann sagði við Serba að Kósóvó tilheyrði öllum íbúum héraðsins, - líka Serbum, og að saman myndu þau skapa samfélag sem tryggir frelsi og jafnrétti. Að Serbar ættu að berjast með Albönum fyrir framtíð Kósóvó með því að taka þátt í stjórnmálum. Báðir þessir menn börðust gegn Serbum í Kósóvó, og Ceku einnig í Króatíu. Báðir eru álitnir stríðsglæpamenn í Belgrad. En þeir eru nógu sterkir til að geta sent þessi skilaboð."

Hvað segir það okkur fyrir sjálfstæðisumræðuna að Ceku, stríðsglæpamaður, er orðinn forsætisráðherra?

"Þetta var auðvitað eins og köld vatnsgusa framan í Serba. En Oliver Ivanovic, leiðtogi Serba í Kósóvó, útilokaði alls ekki að starfa með Ceku, sem hefur mikil völd meðal Kósóvó-Albana, er einn af þeirra frelsishetjum. Ivanovic sagðist vilja sjá verkin tala áður en hann gæti lofað einhverju um frekara samstarf."

Hvernig sérðu þessa hugmynd, um sannleiks- og sáttarnefnd, fyrir þér í ljósi þess að Milosevic er látinn, áður en mikilvægum réttarhöldum yfir honum er lokið?

"Umræðan um sannleiks- og sáttanefnd hefur aldrei verið brýnni en núna. Vonin um að Milosevic réttarhöldin myndu varpa einhverju ljósi á hvað gerðist í Kósóvó er svo til úti. Sjálfstæði hlýtur að vera bundið skilyrðum um virðingu fyrir minnihlutahópum, sem verður vart að raunveruleika nema skilið sé á milli staðreynda og orðróms um hvað gerðist í stríðinu."

Lýðræði er afstætt

Nú hefur Javier Solana krafist þess fyrir hönd Evrópusambandsins að regla um 55% meirihluta verði að ráða úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Svartfjallalandi. Verði þetta ekki gert myndi Evrópusambandið ekki viðurkenna úrslitin og Solana sagðist muna þrýsta á um að ÖSE fylgdist ekki með kosningunum. Þetta skilyrði hefur verið samþykkt af þinginu í Svartfjallalandi og í leiðara Morgunblaðsins var þetta harðlega gagnrýnt. Þar var sagt að aðferðir Solana beri vitni um "hroka og valdníðslu og segja margt um það hvað er að marka málflutning ESB um lýðræði og lýðræðisvæðingu á Balkanskaga þegar á reynir". Hvað finnst þér um þetta?

"Lýðræði er afstætt, það hefur mismunandi þýðingu við mismunandi aðstæður. Kosning um aðskilnað Svartfjallalands frá Serbíu er mikilvægari en til að mynda kosning um lengingu opnunartíma sölustaða. Það verður að vera skýrt að niðurstaðan sé studd af skýrum meirihluta þeirra sem taka afstöðu. Stöðugleiki á svæðinu er í húfi. Mér sýnist að Solana sé að tryggja að Svartfellingar hafi skýran vilja og að þeir sýni þennan vilja í kosningunum. Í Kósóvó eru til að mynda reglur um fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna sem yrðu aldrei samþykktar á Íslandi. Hroki og valdníðsla? Kannski, kannski réttlætanleg í augum Solana og kannski réttlætanlegt undir þessum kringumstæðum. Mér finnst hins vegar eðlilegt að nota reglur sem henta viðkomandi kringumstæðum."

Nú vitum við að Kósóvóbúar eru orðnir þreyttir á stjórnsemi UNMIK (yfirstjón Sameinuðu þjóðanna í Kósóvó), að stjórnarhættir þeirra og stefnumótun sé á forsendum UNMIK, en ekki heimamanna. Er alþjóðasamfélagið ekkert að læra af reynslunni?

"Ég held að UNMIK hafi fengið mjög skýr skilaboð í mars 2004 þegar yfir 50.000 Kósóvó Albanar efndu til óeirða um allt Kósóvó. Reiðinni var ekki bara beint að Serbum heldur einnig Sameinuðu þjóðunum. Við höfðum soðið fyrir öryggislokann og gleymt honum, við lokuðum augunum fyrir gagnrýni þeirra sem við kölluðum öfgahópa, og útkoman var þessar óeirðir, hátt í þúsund brunnin hús, um tuttugu látnir og hátt í þúsund slasaðir. En við, alþjóðasamfélagið, lærum seint og lítið og höfum ekki nóga tilfinningu fyrir straumum sem bera Kósóvó í ákveðnar áttir. Þó að mjög margir alþjóðastarfsmenn í Kósóvó skilji hvað sé að gerast þá er erfitt að útskýra það fyrir þeim sem sitja í Washington, París og Moskvu. Auk þess er sterk tilhneiging hjá Sameinuðu þjóðunum í Kósóvó að mála bara björtu litina í öllum skýrslum til höfuðstöðvanna í New York, eða Öryggisráðsins, ekki viljum við láta þá halda að við höfum ekki stjórn á hlutunum? Þetta er einmitt meðal ástæðnanna fyrir nauðsyn þess að sannleiks- og sáttanefnd verði sett á laggirnar og stjórnað af heimamönnum, annars hefur hún aldrei þann trúverðugleika sem þarf."

Hættan á óeirðum að aukast

Nú hafa margir bent á þá þróun að serbneskir þjóðernissinnar komi til með að eflast eftir andlát Milosevic, í kjölfar vaxandi krafna um að Ratko Mladic og Radovan Karadzic verði framseldir til stríðsglæpadómstólsins í Haag og í ljósi sjálfstæðiskrafna Kósóvó og hugsanlega Svartfjallalands. Hvernig sérðu framhaldið fyrir þér?

"Ég held að það þurfi áður óþekkta diplómatíska hæfileika alþjóðasamfélagsins til að ná niðurstöðu sem Balkanskaginn getur sætt sig við. Og ég held að hættan á óeirðum í Kósóvó sé að aukast. Mér sýnist að NATO sé að átta sig á þessari hættu og aukinn viðbúnaður bandalagsins í Kósóvó sé í ljósi þessa."

Jule A. Mertus, sérfræðingur í málefnum fyrrverandi Júgóslavíu, segir í nýlegri grein á Open Democracy, það vera sterkar rætur þjóðerniskenndar Serba sem standi "friði" fyrir þrifum og hafi verið aðal orkugjafinn fyrir Milosevic er hann þandi áróðursvélina í átt að frekari völdum í fyrrverandi Júgóslavíu. Mertus segir brýnast að beina þessari þjóðerniskennd í jákvæðan farveg sem nýtist Serbum á uppbyggilegan hátt, í framtíðinni og í samfélagi þjóðanna. Er eitthvað til í þessu?

"Já, mikið. Þjóðernishyggjan er ekki endilega ástæða ófriðar, heldur frekar hvert henni er beint og í hvaða tilgangi. Að mínu viti snýst serbnesk þjóðernishyggja ekki um að þeir séu betri en aðrir, heldur frekar að þeir hafi verið fórnarlömb, hvort sem það er gagnvart Ottóman Tyrkjum, Albönum eða Bandaríkjamönnum. Milosevic sagði þeim að þeir gætu risið upp, en jafnframt kippti hann undan þeim fótunum. Ég sé ekki endilega sannleiks- og sáttarnefnd í Kósóvó sem einhvern áhrifamátt gegn þjóðernishyggju í Serbíu, en slík nefnd í Serbíu gæti verið verkfæri í þá áttina."

Lærum seint og illa

Í greininni segir þú eftirfarandi: "Það að afhjúpa sannleikann og skrásetja á kerfisbundinn hátt vitnisburði og sannanir fyrir liðnum átökum og ofbeldi er ekki gert í þeim tilgangi að skapa sameiginlegt samviskubit, heldur til að forðast sameiginlegt sakleysi." Hvaða þýðingu hefur þessi staðhæfing fyrir sáttarferlið í Kósóvó?

"Ef ég er fórnarlambið þá get ég ekki verið sekur, það eru "hinir", og ef ég hefni, þá er það réttlætanlegt, því ég er fórnarlambið. Það er þessi röksemdafærsla fyrir sakleysi sem er ekki sérlega hjálpleg, sérstaklega þegar allar hliðar átakana nota hana. Á stríðstímum, þá eru hlutir sem ég og þú myndum gera til vernda okkar fjölskyldur sem aðrir myndu sjá sem illvirki. Þegar rykið sest reynum við síðan að réttlæta það, þó svo að það hljómi óréttlætanlegt og of langt gengið fyrir þann sem sér hlutina úr fjarlægð. Þessi röksemdafærsla á ekki bara við um einstaklinga, heldur líka þjóðarleiðtoga og hermenn. Það er þessi réttlæting sem þarf að skoða og oft að brjóta niður. Svo koma auðvitað hlutir í ljós sem henta ekki einhverri þjóð eða stofnun."

Ef þú berð hugmyndir þínar saman við uppbyggingarstarfið í Írak og Afganistan, telurðu þörf fyrir svipað ferli þar? Er verið að endurtaka mistök frá Kósóvó eða er verið að læra af reynslunni?

"Við lærum bæði seint og illa og eigum það til að endurtaka sömu mistökin. Alþjóðastofnanir hafa gengið í gegnum nógu mikla naflaskoðun til að vita hvað þarf en virðast eiga erfitt með að færa þá þekkingu í framkvæmd. Ég hins vegar þekki Afganistan og Írak ekki nógu vel til að geta sagt hvort sannleiks- og sáttanefnd væri hentug þar. Þeim stríðum er heldur ekki lokið að mínu viti."

Í lokin fórum við Hjörtur yfir víðan völl. Ræddum söguna, hvernig hún heldur áfram að svífa yfir vötnum og endurtaka sig eins og líf Bill Murrays í myndinni Groundhog Day. Og Hjörtur las fyrir mig brot úr grein sem Edith Durham, sérfræðingur í málefnum Balkanskagans, skrifaði í byrjun síðustu aldar um albönsku þjóðina sem hún sagði lengst allra þjóða hafa barist fyrir frelsi sínu frá hinum ýmsu stórveldum. Hún ferðaðist víða um Balkanskagann og fylgdist með þróun mála í Balkanstríðunum og fyrri heimsstyrjöldinni. Durham taldi víst að Albanar kæmu aldrei til með að gefa frelsi sitt eftir. Hún hafði mikla samúð með Albönum og segir m.a. í einni af greinum sínum eitthvað á þessa leið: "Við skulum vona að í þetta skiptið þurfi framtíð Albana ekki að velta á miskunnsemi "alþjóðlegs yfirráðs", sem hefur í för með sér að hver þjóð sem á í hlut, berst fyrir eigin skinni á kostnað hins hrjáða skjólstæðings."

En svo er þetta ef til vill bara eitt sjónarmið af mörgum. Ein útgáfa af sannleikanum.