* ARNÞÓR Sigurðsson var kjörinn formaður Frjálsíþróttasambands Íslands á 55. Frjálsíþróttaþingi sem lauk um helgina.

* ARNÞÓR Sigurðsson var kjörinn formaður Frjálsíþróttasambands Íslands á 55. Frjálsíþróttaþingi sem lauk um helgina. Arnþór , sem hefur starfað innan frjálsíþróttadeildar Breiðabliks undanfarin ár, fékk einu atkvæði meira en Unnur Sigurðardóttir , fyrrverandi gjaldkeri sambandsins.

* JÓNAS Egilsson , sem verið hefur formaður FRÍ undanfarin níu ár, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Hann var kosinn heiðursforseti FRÍ á þinginu.

* AÐRIR í stjórn FRÍ voru kosin Áslaug Ívarsdóttir, Gestur Guðjónsson, Gunnar Sigurðsson og Hörður Sverrisson.

* BORGARSTJÓRANUM í Reykjavík, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur , var veitt gullmerki sambandsins sem vottur um þakklæti hreyfingarinnar vegna aðkomu borgarinnar að uppbyggingu aðstöðu fyrir frjálsíþróttir í Laugardal . Mörg mál og tillögur voru samþykktar á þinginu og meðal annars að frá og með næsta ári skuli haldin Bikarkeppni innanhúss, en það hefur ekki verið áður.

* ÞAÐ vakti mikla athygli í sl. viku þegar Oliver Kahn, markvörður Bayern München, sagði í viðtali að Jürgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Þýskalands, hafi tjáð sér að hann væri fyrsti markvörður Þýskalands á HM í sumar. Þessi yfirlýsing kom á óvart, þar sem vitað var að Klinsmann hefur ekki gert upp hug sinn hvaða markvörður standi á milli stanganna á HM.

*ÞAð kom því fáum á óvart þegar Oliver Bierhoff, aðstoðarmaður Klinsmanns, sagði í gær í viðtali við þýsku sjóvarpstöðina DSF að það yrði ekki ákveðið fyrr en í maí hvort það verði Jens Lehmann, markvörður Arsenal, eða Kahn sem verði markvörður númer eitt á HM. "Baráttan á milli þeirra er hörð. Hún mun standa áfram fram á síðasta dag," sagði Bierhoff.

* ÞÆR fréttir hafa borist frá herbúðum Bayern München, að þýsku meistararnir eru tilbúnir að kaupa hinn 17 ára sókndjarfa argentínska miðvallarspilara Sergio Aguero frá Independiente. Uli Höeness, framkvæmdastjóri Bayern, hefur fylgst með snáða. Þess má geta að Bayern hefur nú sjö leikmenn frá Suður-Ameríku í herbúðum sínum. Martin Demichelis, Ze Roberto, Lucio, Claudio Pizarro, Roque Santa Cruz, Paolo Guerrero og Julio dos Santos.