30. mars 2006 | Minningargreinar | 1054 orð | 1 mynd

ÞÓRARINN INGI ÞORSTEINSSON

Þórarinn Ingi Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 24. febrúar 1930. Hann lést á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Fossvogi 23. mars síðastliðinn. Þórarinn Ingi, eða Ingi eins og hann var oftast nefndur, var einkasonur hjónanna Þorsteins Þórarinssonar vélstjóra og konu hans Þóru Einarsdóttur, húsmóður og saumakonu.

Ingi kvæntist 6. september 1955 Fjólu Þorvaldsdóttur, f. 1. nóvember 1931. Sonur þeirra er Þorsteinn Skúli, tölvufræðingur, f. 28. júlí 1960.

Ingi ólst upp í Reykjavík, en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og síðan prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Ingi fékkst við margvíslegan atvinnurekstur um ævina hér á landi og erlendis. Hann stofnaði ásamt föður sínum verslunina Everest og kom einnig að rekstri prjónastofu á Akranesi og naglaverksmiðju í Borgarnesi áður en fjölskyldan flutti utan. Hann bjó fyrst í Englandi um árabil þar sem hann fékkst við ýmis viðskipti, en fluttist síðan til Afríku, þar sem hann bjó meðal annars í Tansaníu, á Mauritius og í Nairobí í Kenýa. Hann fékkst þar við margvíslega starfsemi og var meðal annars um fimm ára skeið aðalframkvæmdastjóri fyrir uppbyggingu og rekstri stærsta iðnfyrirtækisins í Tansaníu á þeim tíma. Hann var einnig aðalræðismaður Íslands í Nairobí í Kenýa er hann bjó þar.

Ingi fluttist síðan aftur til Englands þar sem hann hafði aðsetur síðustu árin.

Sonur Inga og Yunie Kalule sem ættuð er frá Úganda en býr í London er Ingi Lúðvík Tómas, f. 11. febrúar 1984.

Ingi var virkur félagi í reglu frímúrara ytra og ennfremur í Rotary-hreyfingunni.

Ingi var þekktur frjálsíþróttamaður á sinni tíð og keppti í mörg ár undir merkjum KR og átti sæti í landsliðinu sem grindahlaupari. Hann var m.a. í hinu fræga sigurliði Íslands, sem sigraði Dani og Norðmenn samtímis 28. og 29. júní 1951. Þá var Ingi í hópi þeirra, er fyrstir lögðu stund á körfuknattleik hér á landi.

Útför Inga verður gerð frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Hann var alltaf vaskur maður hann Ingi Þorsteinsson. Ekki vílaði hann heldur hlutina fyrir sér. Þegar kippt var stoðunum undan fyrirtæki því, sem átti að sjá honum og fjölskyldu hans fyrir lifibrauði, tók hann sig til og fluttist til útlanda með allt sitt nánasta fólk, ekki bara konuna og barnið, heldur fylgdu þau líka einkasyni sínum foreldrar hans. Þetta var seint á sjöunda áratug síðustu aldar. Síðan hefur starfsvettvangur Inga mestanpart verið á erlendri grundu, oft í framandi umhverfi. Einstakur aðlögunareiginleiki hans, glaðsinna lund, hlýtt hjartalag og góð framkoma gerði honum þetta mögulegt. Ekki var það alltaf auðvelt, á stundum erfitt, en alltaf var bjartsýnin í fyrirrúmi og hugarfarið jákvætt. Keppnisskap gamla íþróttamannsins óbilandi.

Meðan Ingi bjó í Kenýa áttum við Steinunn þess einu sinni kost að heimsækja hann. Þá var hann reyndar orðinn einn þar eftir af sínu fólki, en móttökurnar voru engu að síður höfðinglegar. Heimili hans stóð okkur opið, og af kostgæfni skipulagði hann dvöl okkar, svo að við gætum notið hins bezta, sem til boða stóð í gistilandi hans. Og ekki vöfðust fyrir honum reddingarnar, þegar eitthvað virtist ætla að fara úrskeiðis. Hann vissi nákvæmlega, hvað gera þurfti, og hann naut þess að geta greitt götu annarra.

Ekki var það síður ánægjulegt að fá Inga og fjölskyldu hans í heimsókn en að sækja þau heim. Það var eins og hann liti á það sem skyldu sína, þegar hann var gestkomandi, að fylla hús vina sinna glaðværu lífi. Ekki sízt fyrir þetta verður Ingi Þorsteinsson fjölskyldu minni minnisstæður.

Við Steinunn og fjölskyldan sendum vinum okkar Fjólu, Þorsteini og Elínu og öðrum ástvinum Inga einlægar samúðarkveðjur.

Hörður Einarsson.

Hörður Einarsson.

Það var óvænt að heyra um andlát Inga Þorsteinssonar vinar míns aðeins 77 ára að aldri. Leiðir okkar höfðu reyndar ekki legið saman um skeið, en ég vissi ekki að hann hefði verið sjúkur og á sjúkrahúsi hér heima.

Við Ingi kynntumst í Afríku þegar við bjuggum þar báðir en um það leyti var hann að flytja frá Máritíus til Nairobi í Kenía þar sem ég bjó þá. Ingi var ákaflega elskulegur maður og hjálpsamur auk þess að vera rausnarlegur gestgjafi og hafði gaman af samskiptum við fólk. Því var sérstök ánægja að umgangast Inga og konu hans, Fjólu. Þau komu sér vel fyrir í borginni og Ingi rak þaðan fyrirtæki sín í framleiðslu, ráðgjöf og flutningaþjónustu. Hann var ræðismaður Íslands í Kenía og leysti hvers manns vanda af stakri prýði. Hann gerði gott í kring um sig, eins og einhver orðaði það svo vel á okkar ylhýra máli þegar minnst var annars manns.

Við héldum síðan sambandi og hittumst af og til þegar hann kom til Íslands eftir að ég flutti heim, og eins síðar eftir að Ingi flutti til Bretlands og hóf starf þar fyrir íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki.

Þó að ég hafi misst sjónar á Inga síðari árin er mér söknuður í huga þegar ég nú kveð hann að ferðalokum. Ég votta Fjólu og Þorsteini samúð mína og bið þeim blessunar. Minningin um Inga hlýjar okkur vinum ykkar.

Sigurður Jónsson.

Á mínum ungdómsárum voru það mikil forréttindi fyrir okkur strákana í vesturbænum að geta sótt gamla Melavöllinn, leika þar og sparka, og umgangast margar af þeim frægu hetjum sem fylktu liði þeirra frjálsíþróttamanna sem gerðu garðinn frægan á gullaldarárum frjálsra íþrótta.

Í hópi þessara manna var Ingi Þorsteinsson, glæsilegur ungur maður, hávaxinn, ljóshærður, léttur í spori, spengilegur og glaðvær. Ekki var verra að Ingi var KR-ingur og nágranni minn í Skjólunum.

Ef ég man rétt var hann ágætur spretthlaupari og langstökkvari en fyrst og fremst gat hann sér orð sem grindahlaupari, landsliðsmaður og Íslandsmethafi. Ingi var formaður Frjálsíþróttasambands Íslands 1962-65.

Þegar keppnisferli Inga lauk fluttist hann snemma til útlanda og dvaldist þar lengstum, einkum í Nígeríu og var kjörinn ræðismaður Íslands þar í landi.

En Ingi kom oft heim, hringdi gjarnan og spjallaði, við heilsuðumst og göntuðumst á gangstéttinni í Faxaskjólinu, og alltaf var sama birtan og glaðværðin í fari hans. Minntist gamalla daga, fylgdist með gangi mála og var þakklátur fyrir árin sín í íþróttunum og sínu gamla félagi.

Það var fyrir hans hvatningu að haldið var upp á hina frægu sigra, í knattspyrnunni á móti Svíum, og í frjálsum gegn Dönum og Norðmönnum, fagran júnídag 1952, á hálfrar aldar afmæli þessa merka sigurdags í íslenskum íþróttum.

Snögglegt fráfall Inga Þorsteinssonar eru mér sorgarfréttir. Persónulega og í nafni íþróttahreyfingarinnar kveð ég þennan höfðingja, góðan dreng og skemmtilegan samferðamann og sendi konu hans og aðstandendum samúðar- og saknaðarkveðjur.

Ellert B. Schram.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.