Sviðin jörðin á Mýrum stingur í augun. Eldurinn var gífurlegur þegar mest var en var sigraður með samstilltu átaki mikils fjölda liðs leikra og lærðra.
Sviðin jörðin á Mýrum stingur í augun. Eldurinn var gífurlegur þegar mest var en var sigraður með samstilltu átaki mikils fjölda liðs leikra og lærðra. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is ELDAR blossuðu upp á ný á Mýrum síðdegis á laugardag eftir að þeir höfðu verið slökktir þá um morguninn eftir tveggja sólarhringa baráttu fjölda fólks.
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is

ELDAR blossuðu upp á ný á Mýrum síðdegis á laugardag eftir að þeir höfðu verið slökktir þá um morguninn eftir tveggja sólarhringa baráttu fjölda fólks. Svæðið verður nú vaktað rækilega þar til vissa hefur fengist fyrir því að eldurinn sé alveg kulnaður.

Talið er að yfir 100 ferkílómetra svæði hafi orðið eldinum að bráð. Landhelgisgæslan og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins tóku loftmyndir af svæðinu á laugardag til þess að meta það nákvæmlega hversu stórt svæði fór undir eld.

Að sögn lögreglu hafa verið skipaðir vakthópar sem munu hafa það verkefni að fylgjast með svæðinu næstu daga.

Að sögn Ólafs Egilssonar, bónda á Hundastapa, munu menn ekki yfirgefa svæðið á næstunni fyrr en fer að rigna en spáð er slyddu og rigningu næstu tvo daga. Ólafur sagði að víða væri glóð í mosa sem sæist ekki berum augum. Því væri nauðsynlegt að hafa auga með svæðinu.

Vegurinn rennbleyttur

Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarnesi, sagði eldinn hafa blossað aftur upp við bæinn Ánastaði eftir að glóð hafði borist frá vestara brunasvæðinu. "Menn héldu nú að þeim hefði tekist að komast fyrir eldinn en hann lifir lengi í mó og þegar fór að kula á laugardag varð af litlum neista mikið bál eins og oft vill verða. Það brann töluvert mikið svæði en okkur tókst að hindra framrás eldsins við Miklaholt. Þar var eldurinn stöðvaður við læk með því að kveikja í hinum megin lækjarins þannig að það brann á móti. Þannig var tryggt að eldurinn færi ekki upp að Snæfellsnesveginum. Hættan var sú að eldurinn færi yfir Akraveginn, frá Hrafnkelsstöðum að Hundastapa."

"Því var vegurinn rennbleyttur allan daginn og sömuleiðis öxlin ofan við veginn. Það gerði gæfumunninn og því barst eldurinn ekki niður fyrir veg því annars hefði hann getað farið yfir Álftá. Hún er á ís núna svo að það hefði getað feykst glóð yfir hana og þá hefði allur Álftaneshreppurinn brunnið. Ég hefði ekki boðið í það. Til þess að ganga til bols og höfuðs á helvítinu náðum við okkur í jarðýtu og flettum sverðinum í sundur og stöðvuðum eldinn milli Hrafnkelsstaða og Ánastaða."

Í alla fyrrinótt og í gær var síðan unnið að því að drepa í glæðum víða og fékkst aðstoð frá liðsmönnum SVFÍ og fleirum. Vakt átti að vera á svæðunum í nótt og í dag, mánudag, verður framhaldið metið. "Það á víst að þykkna upp og rigna. Við erum því alsælir með það."

Haugsugur bænda hafa sem kunnugt er gert gríðarlegt gagn en um tíma var erfitt að beita þeim vegna frosts í stútum. "Þetta hefði farið mjög á annan veg ef bændurnir hefðu ekki komið til. Þetta eru kjarkaðir og áræðnir menn sem kunna með þessi tæki að fara. En vatnið fraus á stútunum, bæði þegar var verið að sjúga á sig og hleypa úr. Það var 10 stiga frost á laugardagskvöldið og þá voru stútarnir hitaðir með gaskútum. Þetta var erfitt en menn eru ekki þekktir fyrir að gefast upp hér á Mýrunum."