Svana Hrönn Jónsdóttir, GFD, tryggði sér Freyjumenið í annað sinn og Jón Birgir Valsson, KR, formaður Glímusambands Íslands, tryggði sér Grettisbeltið eftirsótta í fyrsta sinn á ferlinum.
Svana Hrönn Jónsdóttir, GFD, tryggði sér Freyjumenið í annað sinn og Jón Birgir Valsson, KR, formaður Glímusambands Íslands, tryggði sér Grettisbeltið eftirsótta í fyrsta sinn á ferlinum. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
JÓN Birgir Valsson, KR, formaður Glímusambands Íslands, hrósaði sigri í Íslandsglímunni sem háð var í Síðuskóla á Akureyri á laugardag og hlaut því Grettisbeltið eftirsótta og í kvennaflokki varð Svana Hrönn Jóhannsdóttir, GFD, hlutskörpust og fékk að...

JÓN Birgir Valsson, KR, formaður Glímusambands Íslands, hrósaði sigri í Íslandsglímunni sem háð var í Síðuskóla á Akureyri á laugardag og hlaut því Grettisbeltið eftirsótta og í kvennaflokki varð Svana Hrönn Jóhannsdóttir, GFD, hlutskörpust og fékk að launum Freyjumenið. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti Svönu Hrönn Freyjumenið og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri afhenti Jóni Birgi Grettisbeltið, en þeir Ólafur og Kristján voru heiðursgestir á mótinu.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is

Íslandsglíman elsta og sögufrægasta íþróttamót á Íslandi hefur verið haldið frá árinu 1906, að undanskildum árum fyrri heimsstyrjaldarinnar, og á þar af leiðandi 100 ára afmæli á þessu ári. Í tilefni 100 ára afmælisins fór mótið fram á Akureyri en Íslandsglíman fór þar fram fyrstu árin

Sigur Jóns Birgis kom flestum á óvart en hann hafði betur gegn Pétri Eyþórssyni, KR, sem bar sigur úr býtum í Íslandsglímunni 2004 og 2005. Þeir hlutu jafn marga vinninga og þurftu því að glíma til úrslita og eftir hörkuspennandi viðureign tókst Jóni Birgi að leggja Pétur með vinstri fótar klofbragði.

Kunnugir telja að þetta sé í fyrsta sinn í sögu Íslandsglímunnar sem formaður Glímusambandsins ber sigur úr býtum en besti árangur Jóns Birgis í Íslandsglímunni fyrir mótið var þriðja sæti. Jón Birgir hefur keppt á öllum mótum Íslandsglímunnar en hann tók fyrst þátt í henni 14 ára gamall.

"Hætti kannski á toppnum"

"Ég held að þetta sé stærsti viðburður allra glímumanna og ég get ekki annað en verið glaður yfir að hafa sigrað í fyrsta sinn á aldarafmæli Íslandsglímunnar," sagði Jón Birgir Valsson en hann keppti í fyrsta sinn á þessu móti árið 1987 og hefur að eigin sögn tekið 13 sinnum þátt frá þeim tíma. "Í raun hafði ég ekki tíma til þess að hugsa um keppnina fyrr en rétt áður en ég fór í fyrstu glímuna. Það var margt annað sem ég þurfti að ganga frá sem formaður Glímusambandsins, enda vildum við gera þetta mót eins glæsilegt og hugsast getur. Mig óraði ekki fyrir því að standa uppi sem sigurvegari," sagði Jón Birgir í samtali við Morgunblaðið.

Góður æfingahópur

Hann þakkar góðum æfingahóp árangurinn. "Það er stór og góður hópur sem æfir hjá KR og einnig mæta þar á æfingar glímumenn úr öðrum félögum. Ég hef því fengið að glíma mikið í vetur við góða glímumenn og þetta hefur allt sitt að segja." Jón Birgir er 36 ára gamall og hefur hann hug á því að verja titilinn að ári. "Ég geri það upp við mig í haust, eins og alltaf. En það eru meiri líkur á því að ég mæti í titilvörnina - en það hefur læðst að mér sú hugsun að hætta á toppnum. En félagar mínir í KR hafa hvatt mig til þess að mæta sterkur til leiks á næsta ári. Líklega verður það raunin," sagði Jón Birgir.

"Framtíðin er björt"

Svana Hrönn Jóhannsdóttir, sigurvegarinn í kvennaflokki, hafði einu sinni áður hampað Freyjumeninu á Íslandsglímunni en það var árið 2003. "Ég er auðvitað mjög ánægð með að hafa náð þessum titli aftur. Keppnin var hörð þrátt fyrir að við höfum ekki verið nema 7 í kvennaflokknum," sagði Svana en hún telur að framtíðin í kvennaglímunni sé björt.

"Það eru ungar stelpur að koma inn frá mörgum félögum og ég kvíði því ekki framtíðinni." Svana býr í Reykjavík og æfir með KR-ingum en hún keppir fyrir Glímufélag Dalamanna. Aðspurð sagði Svana að hún hefði ekki glímt af alvöru við Jón Birgi Valsson á æfingum KR. "Ég æfi með strákunum og stundum er ég að æfa brögð á þeim. En ég hefði vel viljað glíma við Jón Birgi á Akureyri. Það hefði verið gaman og kannski neyðarlegt fyrir hann ef ég hefði skellt honum í gólfið," sagði Svana í léttum tón.