Amsterdam Enn bæta íslensku bankarnir við sig starfsstöðvum í Evrópu og nú hefur Landsbankinn ákveðið að opna útibú í Amsterdam í Hollandi.
Amsterdam Enn bæta íslensku bankarnir við sig starfsstöðvum í Evrópu og nú hefur Landsbankinn ákveðið að opna útibú í Amsterdam í Hollandi. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
LANDSBANKI Íslands hefur tilkynnt Fjármálaeftirlitinu ákvörðun bankans um stofnun útibús í Amsterdam í Hollandi.

LANDSBANKI Íslands hefur tilkynnt Fjármálaeftirlitinu ákvörðun bankans um stofnun útibús í Amsterdam í Hollandi.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að ákvörðun bankans sé tekin í ljósi aukinna umsvifa bankans í lánveitingum og annarri fjármálaþjónustu í Evrópu undanfarin ár. Starfsemi útibúsins muni einnig falla vel að starfsemi Kepler Equities sem er á sama stað.

Útibúið mun heyra undir Fyrirtækjasvið Landsbankans. Robert Verwoerd og Sebastian T.W. Stoetzer munu stýra útibúinu en þeir hafa undanfarin sex ár starfað við útibú Halifax Bank of Scotland í Amsterdam.

Fyrirhugað er að útibúið sinni lánaverkefnum Landsbankans í Hollandi og Belgíu. Fyrst og fremst verði um að ræða þátttöku Landsbankans í sambankalánum ásamt innlánastarfsemi á heildsölumarkaði og fyrirtækjalánum. Síðar megi gera ráð fyrir að sett verði á fót fyrirtækjaráðgjöf í útibúinu.