Kveðjustund Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða, óskar nýjum eigendum velfarnaðar. Finnarnir fimm sem sigla Baldri til Finnlands hafa dvalið hér í tvær vikur.
Kveðjustund Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða, óskar nýjum eigendum velfarnaðar. Finnarnir fimm sem sigla Baldri til Finnlands hafa dvalið hér í tvær vikur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnlaug Árnason garnason@simnet.is Stykkishólmur | Ferjan Baldur, sem hefur fengið nafnið "Gamli Baldur" í hugum Hólmara, hefur lokið hlutverki sínu að flytja fólk og bifreiðar um Breiðafjörðinn.
Eftir Gunnlaug Árnason garnason@simnet.is

Stykkishólmur | Ferjan Baldur, sem hefur fengið nafnið "Gamli Baldur" í hugum Hólmara, hefur lokið hlutverki sínu að flytja fólk og bifreiðar um Breiðafjörðinn. Baldur sigldi úr höfn í Stykkishólmi á laugardaginn áleiðis til Finnlands, þar sem skipið verður áfram notað til ferjusiglinga. Nýir eigendur tóku við skipinu og fimm manna áhöfn sigldi því til nýrra heimkynna.

Ferjan Baldur var nýsmíði og smíðuð sérstaklega fyrir siglingar yfir Breiðafjörð og sá Skipasmíðastöðin Þorgeir og Ellert á Akranesi um smíðina. Það var í maí árið 1990 sem Baldur kom til Stykkishólms og hóf siglingar yfir Breiðafjörð. Ferjan hefur þjónað hlutverki sínu í 16 ár.

Tímamót í ferjusiglingum á Breiðarfirði

Þegar Baldur kom úr sinni síðustu áætlun á föstudag bauð samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, til móttöku um borð í Baldri starfsfólki Sæferða, ásamt öðrum sem tengst hafa rekstri Baldurs á þessum 16 árum. Hann sagði við það tækifæri að nú væru ákveðin tímamót í ferjusiglingum á Breiðafirði. Hér áður var Baldur nauðsynlegur til að tryggja samgöngur við suðurfirði Vestfjarða, en nú er hlutverkið að færast yfir í það að þjónusta ferðamenn. Ráðherra sagði að hann liti svo á að ferjusiglingar yfir Breiðafjörð væru mikilvægur hlekkur í samgöngum og ferðaþjónustu. Hann lagði enn fremur áherslu á vegirnir á sunnanverðum Vestfjörðum verði byggðir upp og bættir eins og áætlanir segja til um, breyttar ferjusiglingar hefðu þar engin áhrif.

Gamli Baldur verður gerður út frá Turku í Finnlandi og mun stunda reglubundnar ferðir á milli Turku og byggðu eyjanna í kring og eins fara sumarferðir með ferðamenn. Að sögn nýju eigendanna er Baldur fyrsta skipið sem smíðað er á Íslandi og selt er til Finnlands.

Barn síns tíma

Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða, var mættur niður á höfn að kveðja Baldur. Hann sagði að Baldur hafi reynst vel. "Það hefur aldrei dottið út dagur vegna bilunar þessi ár sem ég hef komið að rekstrinum. Baldur er barn síns tíma, þó hann sé ekki nema 16 ára gamall," segir Pétur. Hann bætir við að "þegar ferjan var hönnuð voru bílar miklu minni en nú og strandferðaskipin sáu um vöruflutninga. Nú eru bílarnir fyrir ferðarmeiri, með tjaldvagna og hjólhýsi í eftirdragi og vöruflutningarnir hafa færst yfir á þjóðvegina sem þýðir að þeir hafa færst yfir á ferjuna.

Það eru breyttir tímar og við erum að bregðast við því með skipta út Gamla Baldri," sagði Pétur Ágústsson er hann horfði á eftir Baldri sigla frá bryggju og finnski fáninn blakti á skipinu í norðanáttinni.