STJÓRN Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík vill að orkuöflun á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í þágu álversuppbyggingar og annarrar stóriðju verði skoðuð með heildstæðum hætti. Bókun þess efnis hafi verið samþykkt á fundi OR 1.

STJÓRN Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík vill að orkuöflun á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í þágu álversuppbyggingar og annarrar stóriðju verði skoðuð með heildstæðum hætti. Bókun þess efnis hafi verið samþykkt á fundi OR 1. júní 2005 og að ekki verði séð að forsendur hennar hafi breyst.

Í yfirlýsingu frá stjórn VG segir að eðlilegt hljóti að teljast að stefnumarkandi ákvarðanir um orkuöflun til stóriðju verði skoðaðar á vettvangi eigenda Orkuveitunnar, þ.e. borgarstjórnar Reykjavíkur og flokkanna sem að meirihlutanum standi. Slík umræða hafi ekki farið fram. Þá er í yfirlýsingunni ítrekuð áhersla á að OR verði áfram í eigu almennings og varað við því að henni sé beitt í pólitísku skyni til að "halda enn áfram aðgerðum í þágu einhæfra lausna í atvinnumálum sem ógna náttúru, loftslagi og fjölbreyttu atvinnulífi í þessu landi."