ÍSLENSKT tónlistarlíf er afar kraftmikið og iðar af fjölbreyttum stefnum og straumum.

ÍSLENSKT tónlistarlíf er afar kraftmikið og iðar af fjölbreyttum stefnum og straumum. Mikið af afar frambærilegum hljómsveitum hefur látið minna fyrir sér fara - og því ekki fengið verðskuldaða athygli fyrir sína tónlistarsköpun og innlegg í tónlistarflóruna - og hinar sem troða upp um hverja helgi á skemmtistöðum borgar og bæja.

Tónlistarþátturinn "Bak við böndin" mun taka púlsinn á því besta sem er að gerast í íslenskri neðanjarðartónlist en í þættinum verður leitast við að draga þessar hljómsveitir upp á yfirborðið og kynna það sem þær hafa fram að færa. Með því er vonandi hægt að opna augu og eyru áhorfenda fyrir nýjum og kraftmiklum tónlistarheimi. Sumar þeirra hljómsveita sem teknar verða fyrir eru þekktari en aðrar en allar eiga þær sameiginlegt að leika afburða tónlist, með eigin stíl og að hafa myndað sterka hópa aðdáenda þrátt fyrir að hafa farið frekar huldu höfði.

Þátturinn á að höfða til allra þeirra sem áhuga hafa á tónlist en í þættinum í kvöld verður hljómsveitin og fjöllistahópurinn GusGus til umfjöllunar. Umsjónarmenn "Bak við böndin" eru engir nýgræðingar í tónlist eða skemmtanalífi Reykjavíkur. Þær Ellen og Erna eru á meðal heitustu plötusnúða um þessar mundir en þær eru einnig miklir unnendur góðrar tónlistar. Þær lofa hráum og hröðum þætti - í takt við tónlistina - og að spyrja tónlistarmennina spjörunum úr næ stkomandi mánudagskvöld á Sirkus.