Eftir Jóhannes Tómasson joto@mbl.is JÁRN er mikið í íslensku heyi, marktækt mest í heyi á riðubæjum og nálgast ofgnótt og mangan virðist vera nægjanlegt í íslensku heyi en í öfugu hlutfalli við járn og er því þéttni mangans marktækt minnst á riðubæjum.
Eftir Jóhannes Tómasson joto@mbl.is

JÁRN er mikið í íslensku heyi, marktækt mest í heyi á riðubæjum og nálgast ofgnótt og mangan virðist vera nægjanlegt í íslensku heyi en í öfugu hlutfalli við járn og er því þéttni mangans marktækt minnst á riðubæjum. Þetta er meðal niðurstaðna í framhaldsrannsóknum á sjö snefilefnum í íslensku heyi og tengslum þess við uppkomu riðu og aðra sjúkdóma í búfénaði. Dr. Kristín Björg Guðmundsdóttir dýralæknir og dr. Þorkell Jóhannesson, fyrrverandi prófessor sem stýrði rannsókninni, segja í samtali við Morgunblaðið að rannsóknirnar staðfesti fyrri rannsóknaráfanga, að ótvíræð tengsl séu milli mangans í heyi og riðu, þ.e. að mikið mangan í heyi feli í sér ákveðna vörn gegn riðu og að ofgnótt járns í íslensku heyi sem jaðrað geti við eitrun sé mikil í heyi frá riðubæjum.

Rannsóknir þessar hófust árið 2001 og auk þeirra Kristínar og Þorkels voru í hópnum Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Jakob Kristinsson dósent og Tryggvi Eiríksson fóðurfræðingur. Einnig störfuðu með hópnum um tíma Jed Barash, bandarískur læknanemi, og dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í Englandi. Hópurinn starfaði í nánum tengslum við embætti yfirdýralæknis.

Skortur eða eitrun

Rannsóknarhópurinn gerði úttekt á sjö snefilefnum sem eru mikilvæg fyrir starfsemi plantna, dýra og manna. Þau eru nauðsynleg fyrir starfsemi vítamína og hormóna og getur skortur á þeim valdið vissum sjúkdómum og ofgnótt getur valdið eitrun. Rannsökuð voru sjö efni: járn, mangan, kopar, mólýbden, selen, kóbalt og sink. Ákvað hópurinn að tengja niðurstöður við hugsanleg skortseinkenni eða eitrunareinkenni í plöntum og dýrum og beindust rannsóknirnar einkum að því hvort tengja mætti mun á magni snefilefna í heyi við uppkomu á riðuveiki í sauðfé. Af þeim sökum voru bæir þar sem heysýni voru tekin flokkaðir í þrjá flokka: riðulausa bæi á riðusvæðum, fjárskiptabæi, þ.e. bæi þar sem riða hafði verið greind en þeir fengið heilbrigt fé, og riðubæi, þ.e. þar sem riða var á rannsóknartímabilinu.

Þorkell Jóhannesson segir að erfitt sé að komast hjá því að túlka þessar niðurstöður þannig að járn og mangan skipti máli þegar riðan sé annars vegar, þetta geti vart verið tilviljun. Af öðrum snefilefnum segir Þorkell að þéttni kóbalts í heyi virðist lítil og gæti kóbaltskortur komið fyrir í búpeningi en þéttni þess sé hin sama á riðubæjum og riðulausum. Það sama er að segja um sink og mólýbden. Þá kom í ljós við rannsókn þeirra félaga að selenskortur virðist vera útbreiddur í búpeningi á Íslandi þótt það verði ekki tengt við riðu sérstaklega. Þorkell segir hins vegar brýnt að rannsaka málið frekar, ekki síst þar sem riða í sauðfé kosti þjóðfélagið milljónir króna á ári. Hópurinn hafi fullan hug á því en hann hafi hins vegar fengið neitun um styrk hjá Framleiðnisjóði landbúnaðarins eftir neikvæða umsögn frá fagráði sauðfjárræktar. Kostnaður við framhaldið er áætlaður 5 milljónir.