— Morgunblaðið/Júlíus
EINS hreyfils fjögurra sæta flugvél af gerðinni Cherokee nauðlenti á túni við bæinn Víði við Þingvallaveg í Mosfellsdal kl. 20.20 í gærkvöldi. Engan sakaði en auk flugmannsins voru tveir farþegar í flugvélinni.

EINS hreyfils fjögurra sæta flugvél af gerðinni Cherokee nauðlenti á túni við bæinn Víði við Þingvallaveg í Mosfellsdal kl. 20.20 í gærkvöldi. Engan sakaði en auk flugmannsins voru tveir farþegar í flugvélinni. Voru þeir þó allir fluttir á slysadeild til skoðunar í gærkvöldi en engin meiðsl komu í ljós samkvæmt upplýsingum vakthafandi læknis.

Vélin var að kom frá Vestmannaeyjum, á leið til Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingum Flugmálastjórnar urðu gangtruflanir í vélinni til þess að flugmaðurinn sá þann kost vænstan að lenda henni en í lendingunni brotnaði nefhjól vélarinnar. Eftir nauðlendinguna var tilkynnt um óhappið til Neyðarlínu og voru sjúkrabíll og lögregla send á staðinn. Einnig komu fulltrúar Rannsóknarnefndar flugslysa á vettvang í gærkvöldi og skoðuðu aðstæður.