Ingvi Elías Valdimarsson fæddist í Reykjavík 18. júlí 1921. Hann lést á Landakotsspítala 20. mars síðastliðinn og var útför hans gerð frá Háteigskirkju 29. mars.

Elsku Ingvi afi.

Komið er að kveðjustund. Við kveðjum þig með þakklæti fyrir allar góðu minningarnar sem þú skilur eftir þig, minningar sem munu lifa með okkur alla ævi. Þrátt fyrir að hafa vitað að hverju stefndi í veikindum þínum vorum við alls ekki undirbúin þegar kallið kom. En í dag huggum við okkur við að hugsa um það hversu vel hún Fía amma okkar tekur á móti þér, nú ert þú kominn aftur í hennar faðm elsku afi.

Fegurðin er frá þér barst,

fullvel þótti sanna,

að yndið okkar allra varst,

engill meðal manna.

Hlutverk þitt í heimi hér,

þú hafðir leyst af hendi.

Af þeim sökum eftir þér,

Guð englahópa sendi.

Sú besta gjöf er gafst þú mér,

var gleðisólin bjarta,

sem skína skal til heiðurs þér,

skært í mínu hjarta.

(B.H.)

Með þessum orðum minnumst við þín.

Hvíl þú í friði elsku afi.

Sveinn, Soffía og Hildur.

Okkur langar með örfáum orðum að minnast þín, elsku Ingvi afi, nú þegar þú hefur sofnað í hinsta sinn.

Um þessar mundir, þegar hugurinn reikar til baka, spretta fram góðar minningar sem allar eiga það sameiginlegt að endurspegla það hversu lánsöm við vorum að fá að eiga þig að elsku afi. Betri afa var varla hægt að hugsa sér, þú sem alltaf varst svo umhyggjusamur og hlúðir vel að öllu og öllum í kringum þig. Ingvi afi, þú varst mikill listamaður og náttúruunnandi af Guðs náð.

Strax sem börn minnumst við þess hversu ljúft það var að leika í garðinum hjá þér, þar sem í minningunni virðist allaf hafa verið sólskin og hlýja, og fylgjast með hvernig þú ræktaðir upp heilu meistaraverkin í formi litskrúðugra blómabeða, trjárunna og matjurtagarða. Þér var mikið í mun að uppfræða okkur börnin um hollustuna sem í grænkálinu þínu og gulrótunum úr garðinum var falin, "allt er vænt sem vel er grænt" má segja að þú hafir snemma gert að einkunnarorðum þínum. Þú varst hæfileikaríkur maður á fleiri sviðum og varst iðinn við að smíða hitt og þetta í bílskúrnum þegar færi gafst. Það var okkur snemma ljóst að þarna væri meistari að verki. Minnist ég þess, Ása Björk, elst minna systkina, þegar ég var fimm ára, einu sinni sem oftar að heimsækja þig afi, í skúrinn og þú lagðir fyrir mig gátuna: "Hver er sá veggur víður og hár, veglega skreyttur röndum, gulur, rauður, grænn og blár, gerður af meistarahöndum?" Fannst mér engu líkara en þarna hlytir þú að vera vísa til einhverra þinna verka svo mikið álit hafði ég þá þegar á handbragði þínu, þú hafðir nefnilega sannkallaðar meistarahendur. Núna síðustu árin kynntumst við enn einni hlið manngæsku þinnar þegar þú hjúkraðir ömmu Fíu af mikilli alúð og hlýju í veikindum hennar og þar til leiðir ykkar skildi við fráfall hennar sumarið 2004.

Elsku Ingvi afi, nú hafið þið fundið hvort annað á ný og við biðjum góðan Guð að vaka yfir ykkur um alla eilífð.

Hafðu þakkir fyrir allt, elsku Ingvi afi.

Þín barnabörn,

Ása Björk, Egill,

Jón Heiðar og Óskar.

Í dag kveð ég hinstu kveðju Ingva Elías Valdimarsson, afa minn og nafna. Ótal minningar koma upp í hugann en afa minnist ég fyrst og fremst fyrir yfirvegað fas, góðmennsku og þá unun sem hann hafði af náttúru landsins. Eitt sinn gáfu þau amma og afi mér heilræði en það hljóðaði svo: "Láttu sólina aldrei setjast á reiði þína Ingvi minn." Þarna voru þau að ráðleggja litlum dreng inn í framtíðina. Þetta er nokkuð sem ég gleymi seint, orðin lýsa hugarfari þeirra og viðhorfi til lífsins.

Afa minn kveð ég með þessum orðum og hlýja mér við minningar um góðan mann.

Hver fögur dyggð í fari manns

er fyrst af rótum kærleikans.

Af kærleik sprottin auðmýkt er,

við aðra vægð og góðvild hver

og friðsemd hrein og hógvært geð

og hjartaprýði stilling með.

(Helgi Hálfdánarson.)

Hvíl í friði.

Ingvi Arnar Sigurjónsson.

Í dag er til moldar borinn fyrrverandi tengdafaðir minn Ingvi Elías Valdimarsson og vil ég þakka honum samfylgdina með þessu ljóði.

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höfundur ók.)

Guð geymi þig.

Valgerður Vilbergsdóttir.