Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is SLÖKKVISTARF á Mýrunum var allt annað en auðvelt. Eldarnir loguðu á mjög stóru svæði og á nokkrum stöðum á sama tíma.
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is

SLÖKKVISTARF á Mýrunum var allt annað en auðvelt. Eldarnir loguðu á mjög stóru svæði og á nokkrum stöðum á sama tíma. Menn notuðu ýmsar aðferðir og tæki við að slökkva eldana: haugsugur, slökkvibíla, þyrlu, handverkfæri og meira að segja var jarðýta notuð við slökkvistarfið.

Slökkvibílarnir eru stórir og þungir og því var ekki hægt að keyra þá út fyrir vegina. Þeir komu því að bestum notum við að varna því að eldurinn kæmist yfir á ný svæði. Haugsugurnar reyndust hins vegar mjög vel við að slökkva elda sem loguðu innar á svæðinu. Þá reyndist þyrlan vel við að slökkva á svæðum sem haugsugurnar komust ekki á og eins var greinilegt að þyrlan er mjög afkastamikið slökkvitæki. Ennfremur gengu tugir manna með skóflur og önnur handverkfæri og slökktu elda og glóð sem víða logaði.

Mjög erfitt er að keyra á traktorum um sjálfar mýrarnar, en um helgina fóru bændur á traktorum um svæði sem fullyrða má að aldrei hafi verið ekið um áður. Menn fóru jafnvel um svæði sem gamlir menn myndu hafa talið óráð að reyna að fara um á hestum. Ástæðan fyrir því að þetta gekk var sú að jörð er óvenjulega þurr og frost í jörðu. En stundum lögðu menn meira á tækin en hægt var og festu dráttarvélarnar í mýrunum.

Á tímabili á föstudag voru nánast allar haugsugur úr leik eftir að traktorarnir höfðu fest sig í mýrunum. Á staðnum var hins vegar öflug grafa á tvöföldum dekkjum og gröfumaðurinn, sem hefur mikla reynslu af því að vinna á Mýrunum, náði að losa allar dráttarvélarnar.

Mjög kalt var í veðri og olli það bændum vissum erfiðleikum því að frjósa vildi í stútunum á haugsugunum. Og bændur þurftu að glíma við fleiri vandamál, eins og sprungin dekk, bilaðar glussaslöngur og um tíma vantaði olíu á traktorana. Menn gáfu sér vart tíma til að borða, því ef gert var hlé á slökkvistarfi var hætt við að öll sú mikla fyrirhöfn sem menn voru búnir að leggja á sig yrði unnin fyrir gýg. Þá var lítið um svefn hjá mörgum.

Unnið var fram yfir fjögur aðfaranótt laugardags og fram að miðnætti á laugardagskvöld.

Þeir sem ekki tóku beinan þátt í slökkvistarfi höfðu í nógu að snúast við að hafa til mat, svara símtölum frá áhyggjufullum ættingjum og fleira.

Eldar gusu upp á ný á laugardag

Oftar en einu sinni gaus upp eldur á svæði sem menn töldu sig vera búnir að bjarga. Ástæðan er sú að glóð leynist víða í gróðrinum. Vindurinn náði síðan að blása í glæðurnar. Þetta gerðist t.d. eftir hádegið á laugardag þegar gríðarlegir eldar kviknuðu í Ánastaðaflóanum. Eldurinn náði sér á strik á mjög skömmum tíma þrátt fyrir að bændur á Mýrunum væru við eftirlitsstörf á þessu svæði er eldsins varð vart. Aftur þurfti því að kalla út mikið lið frá nærliggjandi sveitum og af höfuðborgarsvæðinu til að berjast við eldana. Tók um átta klukkutíma að slökkva þá elda. Í fyrrinótt var slökkvilið höfuðborgarsvæðisins með vakt á Mýrunum.

Ljóst má vera að bændur og slökkviliðsmenn unnu þrekvirki við að slökkva eldana. Þó að eldurinn hafi farið um gríðarlega stórt svæði hefði hann hæglega getað farið enn víðar. Ekki er t.d. hægt að útiloka að hann hefði getað náð yfir í Álftaneshrepp, sem er næsti hreppur sunnan við Hraunhrepp og er álíka stór og Hraunhreppurinn. Fólk víða að kom að slökkvistarfinu, úr Borgarfjarðarhéraði, af höfuðborgarsvæðinu, Dölum og víðar. Eins og fram hefur komið er það svæði sem hefur brunnið stærra en allt höfuðborgarsvæðið. Hægt er að taka annan mælikvarða. Á bænum Hundastapa, þar sem rekið er nokkuð stórt kúabú, eru um 50 hektara tún, sem sumum þykir talsvert stórt. Svæði sem brann er talið ekki undir 10.000 hekturum.