EINS OG greint var frá í Morgunblaðinu á laugardag er von á fjórtán laga plötu með 35 ára gömlum upptökum frá fjórum upprunalegra meðlima Stuðmanna á næstu dögum. Heldur frjálslega var farið með staðreyndir í þeirri frétt í tilefni af 1.

EINS OG greint var frá í Morgunblaðinu á laugardag er von á fjórtán laga plötu með 35 ára gömlum upptökum frá fjórum upprunalegra meðlima Stuðmanna á næstu dögum. Heldur frjálslega var farið með staðreyndir í þeirri frétt í tilefni af 1. apríl og verður hulunni nú svipt af sannleikanum.

Platan góða frá Frummönnum, eins og þeir kalla sig nú, er á leiðinni í búðir á næstu dögum, svo mikið er víst, en upptökurnar eru hins vegar frá því í janúar síðastliðnum.

"Sannleikurinn er sá að þegar Örn Andrésson, fyrsti rótarinn okkar og umboðsmaður, varð fimmtugur fyrir fimm árum lagði hann ríka áherslu á að fá gamla kvartettinn saman aftur, en þá höfðum við ekki spilað saman síðan 1970," segir Jakob Frímann Magnússon. "Þegar kvartettinn var að gera sig kláran til að fara upp á svið að nýju þá heyrði ég söng þessara þriggja, Gylfa Kristinssonar, Ragnars Daníelsen og Valgeirs Guðjónssonar, og það var svo fallegur hljómur að ég hét sjálfum mér því, og við Örn, að við yrðum einhvern veginn að koma þessu á band."

Hittust fjórmenningarnir á laun í heilt ár og sömdu saman fjórtán lög. Til þess að gera plötuna af fullri alvöru fóru þeir til Los Angeles í Bandaríkjunum, í gamla hljóðverið hjá Beach Boys með upptökustjóra þeirrar fornfrægu hljómsveitar. "Við fönguðum eiginlega andann sem hafði varðveist þarna óskertur í öll þessi ár," segir Jakob en þeir stóðu ekki einir að upptökunum því þeir fengu með sér einvala lið.