Logi Geirsson átti mjög góðan leik með Lemgo gegn Gummersbach.
Logi Geirsson átti mjög góðan leik með Lemgo gegn Gummersbach. — Morgunblaðið/Günter Schröder
LOGI Geirsson átti stórleik með Lemgo þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitum EHF-keppninnar í handknattleik í gær.

LOGI Geirsson átti stórleik með Lemgo þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitum EHF-keppninnar í handknattleik í gær. Lemgo tapaði á heimavelli fyrir Gummersbach, 26:25, í síðari viðureign liðanna í undanúrslitunum en Lemgo hafði betur í útileiknum, 29:27, og vann því einvígið samtals, 54:53. Í úrslitunum mætir Lemgo liði Göppingen.

Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is

Logi skoraði 10 mörk, þar af tvö úr vítaköstum, en Ásgeir Örn Hallgrímsson komst ekki á blað.

Guðjón Valur Sigurðsson átti enn einn stórleikinn með Gummersbach en hann skoraði 11 mörk, þar af þrjú úr vítaköstum, og Róbert Gunnarsson skoraði 3. Guðjón Valur verður því ekki EHF-meistari annað árið í röð en hann varð meistari með Essen á síðustu leiktíð.

Gummersbach virtist á góðri leið að tryggja sér farseðilinn í úrslitaleikinn en liðið náði fimm marka forskoti í fyrri hálfleik og var fjórum mörkum yfir þegar 20 mínútur voru eftir, 19:15, en heimamenn náðu að klóra í bakkann á lokamínútum leiksins.

Minn besti leikur með Lemgo

,,Ég var látinn leysa Jicha af hólmi í skyttustöðunni eftir að hann fékk að líta rauða spjaldið 18. mínútu og ég var staðráðinn í að standa mig. Mér gekk rosalega vel og þetta er klárlega minn besti leikur með Lemgo og það í mikilvægasta leik liðsins á tímabilinu. Ég er því alveg í skýjunum og það er gaman að koma til baka eftir þessi meiðsli sem hafa svo lengi verið að plaga mig," sagði Logi í samtali við Morgunblaðið í gær.

Logi og félagar mæta Göppingen í tveimur úrslitaleikjum síðar í mánuðinum. ,,Við erum með sterkara lið á pappírunum en það reiknast nú samt ekki þegar út í úrslitaleikina kemur. Við ætlum okkur hins vegar titilinn og ekkert annað," sagði Logi.

Göppingen í úrslit á útimarkareglu

Göppingen, sem landsliðsmaðurinn Jaliesky Garcia leikur með, komst í úrslitin á útimarkareglunni. Göppingen hafði betur gegn franska liðinu Créteil á heimavelli, 23:19, en Créteil hafði betur í fyrri leiknum, 30:26. Liðin stóðu því jöfn eftir leikina tvo, 49:49, en þar sem Göppingen skoraði fleiri mörk á útivelli komst það áfram. Jaliesky Garcia komst ekki á blað fyrir Göppingen en hann kom ekki mikið við sögu enda hefur hann átt við meiðsli að stríða. Bjarni Fritzson skoraði tvö af mörkum Créteil.