Vinkonur á vinaballi Agnes Jónasdóttir, Guðbjörg Helgadóttir og Hanna Laufey Jónasdóttir skemmtu sér vel á vina- og paraballi sem haldið var í félagsmiðstöðinni í lok forvarnarviku.
Vinkonur á vinaballi Agnes Jónasdóttir, Guðbjörg Helgadóttir og Hanna Laufey Jónasdóttir skemmtu sér vel á vina- og paraballi sem haldið var í félagsmiðstöðinni í lok forvarnarviku.
Eftir Guðrúnu Völu Elísdóttur gve@ismennt.is Borgarnes | Forvarnar- og vinavika ungmenna stóð yfir í Borgarbyggð og á Akranesi í síðustu viku.
Eftir Guðrúnu Völu Elísdóttur gve@ismennt.is

Borgarnes | Forvarnar- og vinavika ungmenna stóð yfir í Borgarbyggð og á Akranesi í síðustu viku. Húsráð ungmennahúsa á Akranesi og Borgarnesi ásamt Nemendafélagi Fjölbrautaskóla Vesturlands bauð upp á dagskrá fyrir unglinga og ungmenni m.a. til að sýna fram á að auðvelt er að skemmta sér án vímuefna. Var 10. bekkingum grunnskóla þ.e. verðandi framhaldsskólanemum í haust, boðin þátttaka í þessari vímuefnalausu dagskrá. Indriði Jósafatsson, æskulýðsfulltrúi í Borgarbyggð, sagði að í raun hefðu það verið ungmennin sjálf í ungmennahúsi, sem vildu gera eitthvað fyrir þennan aldur. "Rannsóknir og staðreyndir sýna að stórleg aukning verður á neysluvenjum ungmenna á fyrsta ári í framhaldsskólum, en það þarf ekki endilega að vera sjálfsagður hlutur. Ég tel að nokkuð vel sé haldið utan um forvarnarstarf á grunnskólastigi í flestum sveitarfélögum landsins en klárlega mætti gera betur fyrir aldursstigið 16-18 ára."

Dagskrá Forvarnar- og vinaviku var aðallega í ungmennahúsum í Borgarnesi og Akranesi en auk þess kom Nemendafélag Fjölbrautaskóla Vesturlands inn í dagskrána með fjölbreyttum og skemmtilegum hætti. Að sögn Indriða var samstarf um þetta verkefni milli þeirra sem stjórna æskulýðsstarfi þessara sveitarfélaga og starfi í ungmennahúsum.

"Boot Camp"-æfing haldin

Dagskrá forvarnar- og vinavikunnar var fjölbreytt og var m.a. boðið upp á kaffihúsakvöld, gestir komu frá Ástráði, félagi læknanema, og voru með kynfræðslu fyrir ungmennin. Halli Reynis trúbador hélt tónleika í Mími ungmennahúsi og sama kvöld var haldin trúbadorkeppni í Hvíta húsinu á Akranesi. Bílskúrshljómsveitir frá Akranesi og úr Borgarnesi lögðu Bíóhöllina Akranesi undir sig, Trúbador 2006 var tilkynntur og kvennahljómsveit frá Fljótsdalshéraði tróð upp. "Boot Camp" æfing var haldin í íþróttamiðstöðinni Borgarnesi og Nemendafélag Fjölbrautaskóla Vesturlands hélt íþróttadag í íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum. Grunnskólinn í Borgarnesi var með vina- og forvarnarviku fyrir 8. og 9. bekk en 10. bekkingar voru önnum kafnir í lærdómi vegna samræmdra prófa. Vikunni lauk með vina og paraballi í Félagsmiðstöðinni í Óðali.

Undirbúningur forvarnardaganna hefur staðið yfir frá því í nóvember á síðasta ári og segir Indriði marga hafa unnið þar að. "Svo var það eiginlega tilviljun að grunnskólinn hér kom inn í dagskrána en við buðum þeim að vera með þegar þau kynntu vinaviku sem átti reyndar að vera viku fyrr en var færð inn í dagskrána, sem var frábært. Árshátíðarverk nemendafélagsins í ár er leikritið Ávaxtakarfan og er það sannarlega hluti af þessu líka, en það verk fjallar um mikilvægi vináttu og bræðralags og hve einelti er ömurlegur hluti af mannlegum samskiptum."

Indriði segir að sér sýnist að dagskráin hér í Borgarnesi hafi gengið vel og virkilega sé þörf á að vera með svona átaksverkefni, sérstaklega fyrir þennan aldur. "Fagna ber líka hve fyrirtæki sýna þessu mikinn velvilja og ber þar helst að nefna fjárstyrk frá Sparisjóði Mýrasýslu og Oddfellow-stúku auk annarra sem láta sig forvarnir varða. Það sem mér finnst standa upp úr, er hve samstarf þessara sveitarfélaga, húsráða ungmennahúsanna og stjórnar nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands, Akranesi, hefur gengið vel og klárlega gerir dagskrána mun viðameiri og skemmtilegri fyrir ungmennin.

Ungmenni á báðum stöðum voru leiðandi í hugmyndavinnu við að setja dagskrá þessa upp og að sjálfsögðu að framkvæma hana."