ÓLAFUR Stefánsson leikur annað árið í röð með spænska liðinu Ciudad Real í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik.

ÓLAFUR Stefánsson leikur annað árið í röð með spænska liðinu Ciudad Real í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Ciudad Real hrósaði sigri gegn Flensburg á útivelli, 29:27, í síðari undanúrslitaleik liðanna en Ólafur og félagar höfðu áður unnið heimaleikinn með níu marka mun, 31:22.

Andstæðingur Ciudad Real í úrslitunum verður spænska liðið Portland San Antonio sem hafði betur gegn ungverska liðinu Veszprém á heimavelli sínum, 32:29, en Ungverjarnir höfðu áður unnið heimaleik sinn með tveimur mörkum, 29:27. Danski landsliðsmarkvörðurinn Kasper Hvidt átti stórleik í marki Portlands og átti stærstan þátt í sigri liðsins

Þar með mætast tvö spænsk lið í úrslitunum annað árið í röð en Börsungar höfðu betur gegn Ciudad Real í fyrra, samanlagt, 55:54.

Flensborgarar vel hvattir af stuðningsmönnum sínum byrjuðu vel og náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik. Í leikhléi hafði Flensburg tveggja marka forskot, 14:12, en Ciudad Real hóf seinni hálfleikin með krafti, skoraði fjögur fyrstu mörkin og eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn lenti.

Ólafur skoraði 4 mörk fyrir Ciudad Real, þar af tvö úr vítaköstum.