Haukar komust upp að hlið Framara í efsta sæti DHL-deildarinnar í handknattleik eftir sigur á HK í Digranesi, 26:24. Þar sem Valur tapaði fyrir Stjörnunni, 34:31, í Garðabæ er ljóst að Valsmenn eru úr leik í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Haukar komust upp að hlið Framara í efsta sæti DHL-deildarinnar í handknattleik eftir sigur á HK í Digranesi, 26:24. Þar sem Valur tapaði fyrir Stjörnunni, 34:31, í Garðabæ er ljóst að Valsmenn eru úr leik í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Fram og Haukar hafa bæði 37 stig, Valur hefur 32 stig í þriðja sæti en þrjár umferðir eru eftir af mótinu.

Framarar hafa betur gegn Haukum í innbyrðisviðeignum svo vinni bæði lið þá leiki sem þau eiga eftir verða Framarar krýndir Íslandsmeistarar.

Leikirnir sem Fram á eftir eru: ÍR (h), HK (ú) og Víkingur/Fjölnir (h).

Leikirnir sem Haukar eiga eftir eru: Víkingur/Fjölnir (h), Afturelding (h), FH (ú).

Leikur Hauka og HK í Digranesi var jafn og spennandi. Haukar höfðu þó heldur frumkvæðið. Þeir höfðu yfir í hálfleik, 14:12, en HK-ingar, sem hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu, náðu að komast yfir í seinni hálfleik og eftir það var leikurinn í járnum. Freyr Brynjarsson innsiglaði sigur Íslandsmeistaranna þegar hann skoraði 26. markið skömmu fyrir leikslok og fögnuðu Haukar vel og innilega þegar úrslitin voru ráðin.

*Patrekur Jóhannesson fór á kostum þegar bikarmeistarar Stjörnunnar lögðu Valsmenn, 34:31, í Garðabænum. Patrekur skoraði 11 mörk og var aðalmaðurinn í sókn sinna manna en Georgíumaðurinn Tite Kalandadze var ekki með Stjörnumönnum né markvörðurinn Roland Eradze. Hjá Val vantaði líka lykilmenn því Sigurður Eggertsson og Baldvin Þorsteinsson voru fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Stjörnumenn höfðu lengst af undirtökin. Þeir voru 17:14 yfir í hálfleik og þann mun náðu Valsmenn ekki að brúa.

*ÍR og FH, sem bæði eru að berjast um að verða í átta efstu sætunum, skildu jöfn, 30:30, í Austurbergi. ÍR-ingar virtust ætla að kafsigla Hafnarfjarðarliðið. ÍR komst í 15:7 en FH tókst að rétta sinn hlut fyrir leikhlé og í staðan í hálfleik var 16:13. FH-ingum tókst að jafna fljótlega í seinni hálfleik og var mikil spenna á lokamínútunum. Björgvin Hólmgeirsson, yngri bróðir Einars landsliðsmanns hjá Grosswallstadt, kom ÍR-ingum yfir, 30:29, þegar rúm mínúta var til leiksloka en Linas Kalandauskas jafnaði fyrir FH-inga með marki úr vítakasti sem besti maður FH-liðsins, Daníel Berg Grétarsson fiskaði. Daníel skoraði 10 mörk fyrir FH en hjá ÍR var Hafsteinn Ingason með 7 mörk.

*KA-menn unnu langþráðan sigur en norðamenn unnu öruggan sigur á ÍBV, 33:25. Með sigrinum komst KA upp að hlið FH í áttunda sæti deildarinnar. Bæði lið hafa 21 stig og ÍR er þar á undan með 22 svo fram undan er hörð barátta um áttunda sætið en átta efstu liðin í deildinni keppa í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Goran Gusic var markahæstur KA-mana með 8 mörk.