— Morgunblaðið/Brynjar Gauti
TÁPMIKLIR voru þeir og útsjónarsamir, iðnnemarnir sem sýndu listir sínar á Íslandsmóti iðnnema - "Gerðu betur," sem fram fór í Kringlunni fyrir helgina með pompi og prakt í tilefni af degi iðn- og starfsmenntunar.

TÁPMIKLIR voru þeir og útsjónarsamir, iðnnemarnir sem sýndu listir sínar á Íslandsmóti iðnnema - "Gerðu betur," sem fram fór í Kringlunni fyrir helgina með pompi og prakt í tilefni af degi iðn- og starfsmenntunar.

Á Íslandsmótinu öttu kappi nemar í hinum hefðbundnu og fjölbreyttu iðngreinum og mátti þar sjá málmsmiði framtíðarinnar setja saman grill, dúkleggjara skera út mynd á gólfi Kringlunnar, hársnyrtinema klippa og greiða og nema í rafvirkjun tengja flókin lagnaverkefni. Þá sýndu málaranemar stílmálningu en trésmíðanemar settu saman handhæga gripi á meðan snyrtifræðinemar snyrtu, förðuðu og lökkuðu. Einnig sýndu nemar í múrverki listir sínar í flísalögn og síðast en ekki síst settu pípulagningamenn framtíðarinnar saman mikil rörlistaverk. Alls voru skráðir til leiks 72 keppendur frá 11 skólum.

Nokkrir iðn- og starfsmenntaskólar kynntu einnig námsframboð sitt á básum í Kringlunni, en um fjölbreytt námsframboð er að ræða í iðngreinum landsins. Það eru Iðnmennt og Mennt sem stóðu fyrir kynningardeginum og Íslandsmótinu, en markmið mótsins er að auka sýnileika iðn- og starfsmenntunar, bæta ímynd greinanna, kynna þær fyrir almenningi - ekki síst ungu fólki og vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og starfi í iðngreinum.