HAGNAÐUR samstæðu Milestone ehf. á árinu 2005 nam tæpum 14 milljörðum króna eftir skatta.

HAGNAÐUR samstæðu Milestone ehf. á árinu 2005 nam tæpum 14 milljörðum króna eftir skatta. Að teknu tilliti til innborgunar hlutafjár á árinu nam arðsemi eigin fjár á árinu 2005 ríflega 207%, sem er í samræmi við væntingar hluthafa félagsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Milestone. Eiginfjárhlutfall móðurfélagsins í lok ársins var 44,5% og samstæðunnar ríflega 28%.

Eigið fé móðurfélagsins var í upphafi árs rúmlega 2,9 milljarðar en eigið fé samstæðunnar í lok árs nam ríflega 23,6 milljörðum.

Stærstu eignir Milestone eru hlutabréf í Glitni og Sjóvá-Almennum tryggingum, sem Milestone á 66,6% hlut í. Í upphafi árs 2006 keypti Milestone hlutabréf í Dagsbrún hf. og ræður samstæðan nú yfir 15,2% hlutafjár í félaginu.

Í desember 2005 gerði Milestone áskriftar- og hluthafasamning við Baug Group, og mun Milestone samkvæmt samningnum framselja eignarhluti sína í Glitni að nafnverði 2.150 milljónir króna, að meðtöldum framvirkum samningum til Þáttar eignarhaldsfélags, dótturfélags Milestone. Auk þess mun Milestone framselja eignarhlut sinn í Sjóvá til Þáttar. Framsalið er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins sem ekki liggur fyrir og því hafa viðskiptin ekki verið bókfærð í ársreikningum félaganna. Samkvæmt samningnum mun eignarhluti Milestone í Þætti lækka í 80%.