SAMNINGUR Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna sem gerður var um seinustu áramót og talið var að hefði verið felldur í atkvæðagreiðslu telst nú hafa verið samþykktur, þrátt fyrir að meirihluti félagsmanna Vélstjórafélagsins,...

SAMNINGUR Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna sem gerður var um seinustu áramót og talið var að hefði verið felldur í atkvæðagreiðslu telst nú hafa verið samþykktur, þrátt fyrir að meirihluti félagsmanna Vélstjórafélagsins, sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu, hafi greitt atkvæði gegn samningnum.

Gerð er grein fyrir gangi þessa máls í fréttafrásögn á vefsíðu Vélastjórafélagsins. Í ljós kom þegar atkvæði um samninginn voru talin 20. febrúar sl. að alls greiddi 301 félagsmaður atkvæði um hann eða 45% félagsmanna. 148 sögðu nei, 146 sögðu já, auðir seðlar voru 2 og ógildir 5. Var það þá sameiginlegur skilningur VSFÍ og LÍÚ að samningurinn hefði verið felldur.

Samningaviðræður voru teknar upp að nýju en höfðu ekki skilað árangri þegar nýjar upplýsingar komu fram. 23. mars s.l. hafði Ragnar Árnason hjá Samtökum atvinnulífsins samband við Helga Laxdal, formann Vélstjórafélagsins, og benti honum á að sennilega teldist samningurinn samþykktur vegna þess að ógild og auð atkvæði teldust með í fjölda greiddra atkvæða.

Samkvæmt lögum þurfi meirihluta greiddra atkvæða til að fella samninga og því hefði 151 þurft að greiða atkvæði gegn umræddum samningi til að fella hann. Er það nú niðurstaðan og sameiginlegur skilningur samningsaðilanna að samningurinn hafi því í raun verið samþykktur.