DOKTORSVÖRN við læknadeild Háskóla Íslands fer fram föstudaginn 7. apríl. Þá ver Jón Hallsteinn Hallsson sameindalíffræðingur doktorsritgerð sína "Virkni, varðveisla og breytingar á Mitf umritunarþættinum" (á ensku "Function, conservation and modifications of the Mitf transcription factor").
Andmælendur eru dr. Colin Goding, vísindamaður við Marie Curie Research Institute í Bretlandi, og dr. Sigurður Ingvarsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og forstöðumaður tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Dr. Stefán B. Sigurðsson, forseti læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í hátíðasal, Aðalbyggingu og hefst klukkan 14. Doktorsverkefni Jóns Hallsteins fólst í greiningu á byggingu, starfsemi og varðveislu Mitf gensins. Stjórnpróteinið Mitf er nauðsynlegt fyrir þroskun nokkurra frumutegunda í mús, þar með talið mastfrumna, beinátsfrumna og litfrumna í húð og augum. Stökkbreytingar í geninu hafa áhrif á þessar frumutegundir en í mismiklum mæli. Í verkefni Jóns Hallsteins var nokkrum stökkbreytinganna í músum lýst, auk þess sem útbúnar voru nýjar stökkbreytingar í geninu með aðferðum erfðatækninnar.
Leiðrétting 5. apríl - Doktorsvörn frá læknadeild HÍ
Jón Hallsteinn Hallsson sameindalíffræðingur ver doktorsritgerð sína föstudaginn 7. apríl, í Öskju, Háskóla Íslands og hefst athöfnin kl. 14. Röng staðsetning á athöfninni var gefin upp í Morgunblaðinu 3. apríl sl.