Nefskattur leggst jafnt á alla greiðendur.
Nefskattur leggst jafnt á alla greiðendur.
Eftir Ómar Friðriksson og Örnu Schram Algengir fyrr á öldum en að mestu horfnir í dag Í umsögn ríkisskattstjóra segir að nefskattar hafi verið algengir fyrr á öldum en þeir séu að mestu horfnir í dag.
Eftir Ómar Friðriksson og Örnu Schram

Algengir fyrr á öldum en að mestu horfnir í dag

Í umsögn ríkisskattstjóra segir að nefskattar hafi verið algengir fyrr á öldum en þeir séu að mestu horfnir í dag. Rifjað er upp að stjórn Thatcher í Englandi hafi lögleitt nefskatt til að fjármagna starfsemi sveitarfélaga. Milljónir neituðu að borga hann og mótmæli náðu hámarki með óeirðum á Trafalgar Square í mars 1990. Andstaða innan Íhaldsflokksins leiddi m.a. til þess að Thatcher sagði af sér.

Ekki eru allir á eitt sáttir um kosti nefskatta, en gera má ráð fyrir auknum umræðum í þjóðfélaginu um þessa tegund skattheimtu vegna þeirrar tillögu í frumvarpi menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið að teknir verði upp nefskattar í stað afnotagjaldsins.

Nefskatturinn verði sérstakt gjald, 13.500 kr., sem lagt verður á skattskylda einstaklinga og lögaðila og innheimtur frá og með 1. janúar 2008.

Ekki virðist ágreiningur innan stjórnarmeirihlutans um að þessi breyting verði gerð ef marka má nefndarálit meirihluta menntamálanefndar Alþingis sem kom fram fyrir síðustu helgi. Þar eru engar athugasemdir gerðar við þá tillögu að nefskattur leysi afnotagjaldið af hólmi þegar hlutafélag verður stofnað um rekstur RÚV.

Meðal þeirra sem hafa efasemdir um nefskatt er ríkisskattstjóri en í umsögn hans um frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. segir að frá skattalegu sjónarmiði hafi nefskattur á einstaklinga fáa kosti en marga galla. "Kostur nefskatts er helstur sá að álagning hans er einföld og auðvelt er að fylgjast með skattgreiðslu. Helsti ókostur nefskatts er að hann tekur ekki tillit til greiðslugetu og er íþyngjandi fyrir tekjulága, þ.e. að þeir greiða hærra hlutfall tekna sinna í skattinn en þeir sem hærri hafa tekjurnar. Af þessum ástæðum er sjaldgæft að nefskattur sé lagður á, a.m.k. af stærðargráðu sem veruleg getur talist."

Í umsögn ríkisskattstjóra er bent á að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir því að hinir tekjulægstu séu undanþegnir nefskattinum. Sömuleiðis séu þeir sem komnir séu yfir tiltekinn aldur, þ.e. 70 ára, undanþegnir skattinum. Síðan segir: "Frítekjumörkum fyrir fast krónugjald fylgja ákveðin vandamál vegna þeirra sem eru sitt hvorum megin næst mörkunum, sem vakið getur spurningu um jafnræði. Sama á við þegar litið er til mismunandi skattlagningar hjóna eftir því hvort annað eða bæði eru ofan markanna. Þá eru skattfrelsismörk skv. frumvarpinu með þeim annmarka að eingöngu er miðað við almennar tekjur, þ.e. launatekjur o.þ.h. en ekki fjármagnstekjur. Allstór hópur manna hefur miklar tekjur af eignum en lágar launatekjur og yrði samkvæmt þessu undanþeginn gjaldinu."

Þá segir í umsögninni að engin rök séu færð fyrir 70 ára aldursmörkunum. Bent er á að tekjulágir aldraðir séu þegar undanþegnir skattinum vegna lágra tekna. Aldursmörkin leiddu því til þess að tekjuháir aldraðir yrðu undanþegnir skattinum á sama tíma og þeir sem væru yngri og tekjulægri bæru skattinn.

Í umsögninni er einnig gert að umtalsefni að tekjuskatturinn leggist ekki einasta á einstaklinga heldur líka á lögaðila. "Skattar á fyrirtæki, sem ekki eru tengdir hagnaði þeirra hafa verið á undanhaldi en hér er snúið af þeirri braut."

Talsmaður neytenda hefur lýst því að hann geri ekki athugasemdir við að tekinn verði upp nefskattur í stað afnotagjalds enda verði tryggt að með því móti sé ekki rýrður hagur neytenda og einkum tekjulægri fjölskyldna og fjölskyldna með ungt fólk á skólaaldri.

Í frumvarpinu er þessi breyting m.a. rökstudd með því að þessi leið hafi í för með sér sparnað þar sem sérstakur kostnaður við innheimtu afnotagjalds fellur niður. Þá fylgi sá annmarki núverandi fyrirkomulagi að þeir sem gerast áskrifendur að einkarekinni sjónvarpsstöð og kaupa sér sjónvarpstæki verði sjálfkrafa greiðendur afnotagjalda til RÚV þar sem greiðsla afnotagjaldsins er bundin við eign á viðtæki. Þá leiði þessi breyting til þess að kostnaður tekjulægstu einstaklinga við að njóta útvarps í almannaþágu fellur niður.

Nefskatturinn mun lúta sömu lögmálum og sérstakt gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Verða tekjulausir einstaklingar og tekjulágir sem ekki greiða gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra undanþegnir nefskattinum. Fjármálaráðuneytið hefur metið það svo að miðað við 13.500 kr. gjald á ári og 1,5% fjölgun greiðenda milli ára megi reikna með að um það bil 183.000 aðilar greiddu gjaldið og að það skilaði um 2.470 milljónum kr. nettó.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við H.Í, fjallar um nefskatta á vísindavef háskólans. "Nefskattar hafa ýmsa kosti, einkum að innheimta þeirra er einföld og að þeir draga til dæmis ekki úr hvata til vinnu með sama hætti og tekjuskattar," segir Gylfi. "Helsti galli nefskatta er augljóslega að þeir leggjast þyngst á þá sem hafa lágar tekjur, þeir geta þurft að greiða hátt hlutfall af tekjum sínum þegar allir greiða sömu krónutölu."