Þeir sem eru bjartsýnir eru meðvitaðir um eigin framkomu, hafa útgeislun, leggja sig fram við að vera í góðum tengslum við sína nánustu, treysta öðrum og njóta þess að deila velgengni sinni.
Þeir sem eru bjartsýnir eru meðvitaðir um eigin framkomu, hafa útgeislun, leggja sig fram við að vera í góðum tengslum við sína nánustu, treysta öðrum og njóta þess að deila velgengni sinni. — Morgunblaðið/Ómar
Öll erum við einstök, með mismunandi þarfir og langanir og langflest fáum við tækifæri til að njóta þess að vera í samfélagi við vini og ættingja. En hvað verður til þess að sumum vegnar vel og aðrir sitja eftir? Það eru margar ástæður.

Öll erum við einstök, með mismunandi þarfir og langanir og langflest fáum við tækifæri til að njóta þess að vera í samfélagi við vini og ættingja. En hvað verður til þess að sumum vegnar vel og aðrir sitja eftir? Það eru margar ástæður. Ein er eflaust sú að einstaklingar hafa mismunandi sýn á lífið eða þor að takast á við það.

Þeir sem eru bjartsýnir og raunsæir að eðlisfari eiga auðveldara með að setja sér raunhæf markmið. Þeir hafa trú á eigin styrk, eru meðvitaðir um eigin tilfinningar, þora að taka ákvarðanir og hafa hugrekki til að standa með sjálfum sér. Þeir spyrja spurninga ef eitthvað er óljóst og þeir horfa á mistök sem tilraun, nýta þau til framþróunar eða að sjá í þeim nýtt tækifæri. Þeir eru meðvitaðir um eigin framkomu, hafa útgeislun, leggja sig fram við að vera í góðum tengslum við sína nánustu, treysta öðrum og njóta þess að deila velgengni sinni. Oftar en ekki geta þeir sett sig í spor annarra,og síðast en ekki síst virðast þeir eiga auðvelt með að biðjast fyrirgefningar ef þeir gera á hlut annarra.

Sjá ógn í hverju horni

En svo eru það hinir sem virðast ávallt geta gert allt að engu. Þeir sjá oftar ógn í hverju horni, æða áfram án þess að spyrja, kenna öðrum um og eru oft ásakandi í garð þeirra sem næst þeim standa. Dómharka þeirra, yfirgangur og niðrandi orðaval gerir það að verkum að þeir einangrast. Þeir hafa sín markmið, en þau eru ómarkviss og loðin og þeir eiga erfitt með að biðja um aðstoð fyrr en allt er komið í þrot. Þessir einstaklingar sjá oft mistök sín sem eitthvað óyfirstíganlegt, þrjóskast við að viðurkenna vanmátt sinn, þora illa að takast á við mótbyr, draga sig í hlé, fyllast jafnvel öfund út í þann sem hefur það betra eða flýja á náðir Bakkusar. Það er erfitt að horfast í augu við vanda og það tilfinningarót sem því fylgir.

Vítahringur magnast

Stöðugur efi og hik geta síðan breyst í kvíða, áfengissýki eða jafnvel þunglyndi. Ef svo er komið þarf einstaklingurinn að horfast í augu við að það er hægt að gera breytingu. Jákvæðni er valkostur. Einstaklingurinn þarf að skoða hvaða breytingu hann vill sjá hjá sjálfum sér, hvernig líðan hans er þegar vandi er ekki til staðar og hvað hann græðir á því að gera breytingarnar. Oftast þarf að fá aðstoð frá fagaðilum til að vinna úr tilfinningum sínum, skoða samsetningu vandans og setja sér raunhæf markmið. Mikilvægt er samt að muna að ávallt er árangursríkast að gera breytingar ef einstaklingurinn er í góðum tengslum við sína nánustu og þorir að heyra hvaða áhrif hegðun hans hefur haft á nánasta umhverfi. Með því að þora að horfast í augu við raunveruleikann og gera þær breytingar sem þarf verður einstaklingurinn hæfur til að uppskera þann munað að lifa skemmtilegu og innihaldsríku lífi.

Salbjörg Bjarnadóttir geðhjúkrunarfræðingur/verkefnastjóri Þjóðar gegn þunglyndi, Landlæknisembættinu.