Eitt yrkja dvergpáskalilju heitir"Rip van Winkle". Blómin eru fallega gul og sérkennilega ofkrýnd og flipótt.
Eitt yrkja dvergpáskalilju heitir"Rip van Winkle". Blómin eru fallega gul og sérkennilega ofkrýnd og flipótt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á þorranum var ég að springa af vorfiðringi svipað og alltof margar plöntur í garðinum mínum, en nú er annar gállinn á mér. Ég tauta helst Nú er hann enn á norðan næðir kuldaél yfir móa og mel... og hugsa þar til kvæðisins Þorraþræls.

Á þorranum var ég að springa af vorfiðringi svipað og alltof margar plöntur í garðinum mínum, en nú er annar gállinn á mér. Ég tauta helst

Nú er hann enn á norðan

næðir kuldaél

yfir móa og mel...

og hugsa þar til kvæðisins Þorraþræls. Og sannarlega hefur hann verið kaldur að undanförnu, meira að segja hér sunnan lands, þótt við tölum stundum eins og við séum komin hálfa leiðina til Kanaríeyja og klæðum okkur eftir því. Á þorranum tóku rósarunnarnir mínir við sér, en sá nývöxtur sem þá spratt fram er nú grár og visinn og vísast að fáar rósir blómstri á nákvæmlega þeim greinum. En "bráðum kemur betri tíð með blóm í haga", svo ég haldi áfram að vitna í góðskáldin. Já, bráðum koma páskaliljurnar og eru vísast komnar hjá sumum, a.m.k. sá ég um miðjan febrúar páskaliljur sem voru að því komnar að springa út, en það var líka í garði neðst við Skólavörðustíg í nafla alheimsins, Reykjavík.

Páskaliljur þekkja allir sem á annað borð taka eftir að blóm eru mismunandi, en sumir hafa flokkunina svo einfalda að gróðurinn skiptist í gras, arfaklær og jólatré, búið spil. Gular páskaliljur og rauðir túlipanar er önnur algeng flokkun en hvers vegna á að hafa hlutina einfalda ef unnt er að gera þá flókna? Menn eru sammála um að til séu nálægt því 60 tegundir af páskaliljum, en nú ætti ég líklega að vera dálítið nákvæmari og tala um hátíðaliljur, eins og ættkvíslin Narcissus er kölluð á íslensku. Svo eru til alls konar mannanna verk og ræktuð afbrigði því auðvelt er að víxlrækta þessa ættkvísl svo alls eru yrkin um 8.000 sem eru á viðurkenndum alþjóðlegum ræktunarlista yfir páskaliljur.

Það er ekki ætlunin núna að fara neitt út í flokkun á páskaliljum, aðeins að minnast dálítið á litlu páskaliljurnar, þessar sem farið er að selja í flestum blómabúðum og jafnvel stórmörkuðum. Þetta eru ýmis smávaxin yrki, hvert öðru fallegra, en því miður yfirleitt ekki nafngreind, heldur bara kölluð dvergpáskaliljur eða pottapáskaliljur. Sannarlega setja þessi fíngerðu laukblóm líf og lit og jafnvel ilm í stofuna, en þau standa sjaldnast lengi því við höfum oftast svo heitt inni í húsum að það er ekki heilsusamlegt jurtum, sem best væru komnar úti. En það er huggun harmi gegn að með dálítilli natni tekst stundum að gera pottapáskaliljurnar "eilífar". Alltaf líður þó að því að blómin visna. Þá er um að gera að brjóta þau af eða jafnvel klippa blómlegginn niður, en leyfa laufinu að standa og halda áfram að vökva. Þannig er möguleiki að halda lífi í lauknum og láta hann safna forða til næsta árs. Svo þegar komin er betri tíð má leggja laukana í moldu úti í garði og bíða og sjá hvort heppnin hafi verið með okkur og við fáum dvergpáskaliljurnar næsta vor. Þetta er hægt, það hef ég séð víða. Góður blómavinur minn í Reykjavík setti svona pottapáskaliljur á alómögulegan stað í garðinum fyrir liðlega 30 árum en þær hafa launað illa meðferð með góðu og koma enn með blóm á hverju vori. En þessar páskaliljur geta líka ruglast í ríminu, a.m.k. gerðu þær það sem blómstruðu í svartasta skammdeginu, fyrsta veturinn eftir að þær fóru út í garð. Síðan hafa þær hagað sér "eins og menn".

Upprunasvæði Narcissus-ættkvíslarinnar er meðal annars sunnanverð Evrópa. Í Portúgal er upprunnin dvergpáskaliljan N. minor, en hún og alls kyns blendingar af henni eru oft seld í pottum um páskana, þótt þær megi auðveldlega gróðursetja á haustin eins og aðrar páskaliljur. Eitt yrkjanna heitir "Rip van Winkle". Blómin eru fallega gul og sérkennilega ofkrýnd og flipótt.

S.Hj.