Frá Ástríði Jónu Guðmundsdóttur: "VIÐ ERUM hópur sem höfum hist og verið að velta fyrir okkur stöðu okkar í lífinu og lífsviðhorfi. Núverandi verkefni okkar er sjálfstyrking og markmiðasetning."

VIÐ ERUM hópur sem höfum hist og verið að velta fyrir okkur stöðu okkar í lífinu og lífsviðhorfi. Núverandi verkefni okkar er sjálfstyrking og markmiðasetning. Út frá þessu verkefni var okkur falið að koma með hugmyndir varðandi varnarliðssvæðið á Miðnesheiði og hvernig við myndum vilja sjá það eftir brotthvarf hersins.

Varnarsvæðið er gríðarlega stórt og fjölbreytt svæði og því komu margar hugmyndir fram. Sú hugmynd sem oftast var nefnd var að breyta svæðinu í háskólasvæði sem myndi mæta öllum þeim þörfum sem þar til gerðar stofnanir krefjast, s.s. afþreyingu margskonar, matvöruverslanir, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, sjúkrahús, íþróttasvæði og svo mætti lengi telja. Með þessari hugmynd sáum við margar nýjar námsleiðir sem fólk hefur áður þurft að sækja á erlenda grundu, en gæti nú byrjað á og klára jafnvel hér heima. Þetta myndi setja háskólann okkar í röð fremstu háskóla á Norðurlöndum. Við sáum læknanámið t.d. sem krefst þess að framhaldsnám sé oft sótt erlendis, svo og allt nám varðandi flugvirkjun og margar fleiri námsleiðir. Á heiðinni er allt til alls varðandi þessar tvær námsleiðir, sjúkrahúsið þar mætti nota sem læknaskóla eða hjúkrunarspítala.

Ekki má gleyma að nefna þau störf sem háskólasvæði myndi skapa. Ef um fulla nýtingu á öllu svæðinu yrði að ræða þá vantaði afgreiðslu og þjónustufólk, ræstitækna, bilstjóra, verktaka, leikskólakennara, ófaglært fólk, matráða, skrifstofufólk, framkvæmdastjóra, forstjóra, fjármálastjóra, lækna, hjúkrunarfólk, kennara, lektora, dósenta, prófessora og svona mætti halda áfram.

Næst á eftir þessari hugmynd var að setja á laggirnar alhliða uppbyggingarsvæði fyrir fólk sem vill koma undir sig fótunum að nýju eða sem hefur ekki haft tök á því áður. Þar má nefna meðferðarstofnun fyrir fólk með vímuefnavanda eða geðraskanir og heimilislausa. Það má ímynda sér þarna hjálparstofnun, stað þar sem fólk vill fá hjálp en hefur einhverra hluta vegna ekki fengið hana; td. fyrir aldraða, langveika, og hreyfihamlaða.

Svo sáum við fyrir okkur á svæðinu nokkurs konar ögunarbúðir fyrir börn og unglinga með hegðunarerfiðleika, sem færu í betrunavist til að ná betri stjórn á hegðun sinni. Alla aðstöðuna á heiðinni, stóru sundlaugina, íþróttahúsin, keilusalinn og fleira væri hægt að nota til jákvæðrar uppbyggingar gagnvart lífsviðhorfi þessara einstaklinga sem væru á öllum aldri.

Sú hugmynd sem einnig hlaut góðan hljómgrunn var að flytja landhelgisgæsluna á völlinn. Einnig vildu sumir gera svæðið að útlenskum ferðamannabæ með alþjóðaáhrifum þar sem þær mörgu þjóðir sem nú búa á Íslandi gætu opnað matsölustaði ofl. Þá gæti verið þarna fríverslunarsvæði.

Við sáum einnig sérstakan íslenskan her þarna á svæðinu fyrir atvinnulausa einstaklinga hér á landi.

Nú gæti innanlandsflugið loksins flutt á Suðurnesin. Það mætti einnig nýta flugskýlin í aðstöðu fyrir flugvirkja til að sinna vélum allstaðar að úr heiminum.

Varnarsvæðið á Miðnesheiði gefur okkur Íslendingum endalausa möguleika til að skapa ótal tækifæri í framtíðinni. Allt sem þarf er hugrekki og þor.

ÁSTRÍÐUR JÓNA

GUÐMUNDSDÓTTIR.

F.h. áhugahóps um framtíð

Miðnesheiðar.

Frá Ástríði Jónu Guðmundsdóttur: