SLAGURINN um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla hefst í Skautahöllinni í Laugardal á mánudagskvöldið en þá leiða saman hesta sína í fyrsta úrslitaleiknum Skautafélag Reykjavíkur og Skautafélag Akureyrar. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður krýnt Íslandsmeistari.
Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is

T ölfræðin er ekki á bandi Reykvíkinga, svo mikið er víst. Akureyringar hafa haft mikla yfirburði í þessari íþrótt hér á landi sem sést best á því að Skautafélag Reykjavíkur hefur hampað Íslandsmeistaratitlinum í 13 skipti af þeim 15 sem keppt hefur verið um hann.

Skautafélag Reykjavíkur hefur einungis unnið tvo Íslandsmeistaratitla, tímabilið 1998-1999 og 1999-2000 .

Fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í liði Akureyringa

Bæði félög hafa undirbúið sig af krafti fyrir úrslitakeppnina og ætla að tjalda því sem til er. Reykvíkingar hafa kallað á Ingvar Þór Jónsson sem leikið hefur með Gladsaxe í Danmörku í vetur og Jón Gíslason, eini atvinnumaður okkar Íslendinga í íshokkí, er kominn til að hjálpa sínum gömlu félögum í Skautafélagi Akureyrar en Jón er nýkominn heim frá Peking í Kína þar sem hann hefur leikið með liði Nordic Viking. Liðið er í eigu norrænna fjárfesta og leikur í Asíudeildinni ásamt átta öðrum liðum frá Kína, Japan og S-Kóreu. Í liði Nordic Viking eru leikmenn frá öllum Norðurlöndunum auk sex Kínverja.

Mest spennandi í langan tíma

,,Við eigum titil að verja eins og vanalega og við ætlum okkur auðvitað ekkert að breyta út af venjunni. Þetta verður nú samt mest spennandi úrslitakeppni í langan tíma," sagði Jón Gíslason, fyrsti íslenski atvinnumaður í íshokkí, við Morgunblaðið.

"Mér bauðst að gerast atvinnumaður hjá Nordic Viking síðastliðið haust og þetta hefur verð mikið ævintýri. Það tók tíma að venjast þessu en eftir áramótin gekk mér mjög vel," sagði Jón.

Tímabilinu lauk í lok febrúar og er samningur Jóns útrunninn en hann segist vera í viðræðum um nýjan samning.

Fyrsti úrslitaleikurinn verður á mánudaginn í Laugardal, annar leikurinn á Akureyri fimmtudaginn 6. apríl og þriðji leikurinn í Laugardal sunnudaginn 9. apríl. Komi til fjórða leiksins fer hann fram á Akureyri 11. apríl og ef til leiksins kemur þá verður hann í Laugardal 13. apríl. Allir leikirnir hefjast klukkan 20.