UM 80.000 manns söfnuðust saman á Péturstorginu í Róm í gærkvöldi til að hlýða á Benedikt XVI páfa fara með bænir klukkan 19.37 að íslenskum tíma, þegar nákvæmlega eitt ár var liðið frá því að Jóhannes Páll II páfi lést.

UM 80.000 manns söfnuðust saman á Péturstorginu í Róm í gærkvöldi til að hlýða á Benedikt XVI páfa fara með bænir klukkan 19.37 að íslenskum tíma, þegar nákvæmlega eitt ár var liðið frá því að Jóhannes Páll II páfi lést. Hluti mannfjöldans sést hér við Péturskirkjuna.

Hundruð þúsunda manna sóttu einnig útimessur í Póllandi á sama tíma og héldu á kertum til að minnast Jóhannesar Páls. Efnt var til minningarathafna, hljómleika og ýmissa sýninga víða í Evrópu og Ameríku um helgina í tilefni af dánarafmælinu.

Nokkrar þúsundir Pólverja, þeirra á meðal forseti og forsætisráðherra landsins, tóku þátt í samkomu þar sem beðið var fyrir því að Jóhannes Páll II yrði tekinn í tölu blessaðra, sem er fyrsta skrefið í áttina að því að hann verði tekinn í dýrlingatölu.