Íslandsmótið.
Norður | |
♠ÁK83 | |
♥1062 S/NS | |
♦D952 | |
♣98 |
Vestur | Austur |
♠DG92 | ♠1074 |
♥84 | ♥95 |
♦G104 | ♦Á87 |
♣KD76 | ♣Á10432 |
Suður | |
♠65 | |
♥ÁKDG73 | |
♦K63 | |
♣G5 |
Furðu margir unnu fjögur hjörtu í þessu spili frá fyrstu umferð Íslandsmótsins.
Vestur | Norður | Austur | Suður |
- | - | - | 1 hjarta |
Pass | 1 spaði | Pass | 3 hjörtu |
Pass | 4 hjörtu | Allir pass |
AV eiga greinilega tvo slagi á lauf og ættu síðan að fá aðra tvo á tígul í fyllingu tímans. Hvað fór úrskeiðis í vörninni?
Sumir völdu að spila út tígulgosa með slæmum árangri. En útspil í spaða er heldur ekki hættulaust ef sagnhafi er í stuði. Sér lesandinn vinningsvon eftir spaðadrottningu út?
Hún er til og byggist á því að trompa út spaðann og senda vörnina inn á lauf. En þá verður að taka strax tvo efstu í spaða og stinga spaða hátt. Aftrompa vörnina í tveimur umferðum og trompa síðasta spaðann. Spila loks laufi.
Vörnin getur tekið tvo slagi á lauf, en neyðist svo til að hreyfa tígulinn. Og þá reynir á hittni sagnhafa. Sennilega er besta vörnin sú að vestur taki síðari laufslaginn og skipti yfir í tígultíu, en ef sagnhafi er á skotskónum getur hann unnið spilið.
Eina vörnin sem virkilega dugar er að taka fyrst tvo slagi á lauf og spila síðan spaða eða trompi. Þá verður sagnhafi sjálfur að verka tígulinn.