Það var girnilegt uppboðið sem haldið var til styrktar krabbameinssjúkum börnum.
Það var girnilegt uppboðið sem haldið var til styrktar krabbameinssjúkum börnum. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hrund Þórsdóttur hrund@mbl.is SÝNINGUNUM Matur 2006 og Ferðatorg 2006 lauk í Fífunni og Smáranum í Kópavogi í gær. Líf og fjör var á svæðinu og um 28.000 gestir heimsóttu sýningarnar um helgina.
Eftir Hrund Þórsdóttur hrund@mbl.is

SÝNINGUNUM Matur 2006 og Ferðatorg 2006 lauk í Fífunni og Smáranum í Kópavogi í gær. Líf og fjör var á svæðinu og um 28.000 gestir heimsóttu sýningarnar um helgina. Sýningin Matur var nú haldin í áttunda skipti og voru sýnendur fyrst og fremst fyrirtæki í eða tengd matvælaframleiðslu. Öll ferðamálasamtök landsins, átta talsins, stóðu að Ferðatorginu en þar gátu gestir kynnt sér fjölbreytta ferðamöguleika og afþreyingu sem í boði er hér á landi. Þar var lögð áhersla á tengingu matarmenningar og ferðamennsku og þá sérstöðu sem einstakir landshlutar bjóða upp á í matargerð.

Þegar blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins litu inn í gær voru kjötiðnaðarmenn í óða önn að bjóða upp afurðir helgarinnar og rann allur ágóði uppboðsins til krabbameinssjúkra barna. Fjöldi fólks fylgdist með og bitust gestir um kræsingarnar sem í boði voru. Á meðan voru tilkynnt úrslit í svokallaðri ostrukeppni, en þar áttu þátttakendur að opna 30 ostrur á sem bestan hátt á sem stystum tíma. Gissur Guðmundsson, forseti klúbbs matreiðslumeistara, var fljótastur að opna sínar ostrur en þó náði Bjarki Hilmarsson, varaforseti klúbbsins, að stela sigrinum af honum með vönduðum vinnubrögðum.

Álfukeppni matreiðslumeistara orðin föst í sessi

Á miðju sýningarsvæðinu myndaðist sannkölluð markaðsstemmning á eyfirsku markaðstorgi, en þar sameinuðu matvælaframleiðendur við Eyjafjörð krafta sína í einum stórum sýningarbás. Er það í fyrsta sinn sem slíkt er gert á sýningunni og var Ólína Freysteinsdóttir, sem sá um básinn, ánægð með hvernig til tókst. Í vali um athyglisverðustu básana hlutu Baco-Ísberg verðlaun í flokki stórra sýningarbása og Maður lifandi í flokki þeirra minni en sá norðlenski fékk sérstaka viðurkenningu.

"Það er búið að vera brjálað að gera og básinn hefur fengið ofsalega góð viðbrögð. Við ákváðum fljótt að hafa þetta svona markaðstorgsstemmningu," sagði Ólína. "Stærstu fyrirtækin eru í kjötframleiðslu, Norðlenska og Kjarnafæði, og það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að þau ynnu saman. Þetta er bara spurning um samvinnu vs. samkeppni og þetta hefur gengið vel hjá okkur."

Um helgina fór í fyrsta skipti í heiminum fram álfukeppni matreiðslumeistara en hún var haldin á vegum Klúbbs matreiðslumeistara á Íslandi og Suður-afrísks klúbbs. Ástralir fóru með sigur af hólmi en Brasilíumenn höfnuðu í öðru sæti og Eistar í því þriðja. Að sögn Hjartar Þórs Frímannssonar, upplýsingafulltrúa keppninnar, tókst mjög vel til og segir hann keppnina orðna fasta í sessi.

Ferðalangar í eigin landi

Meðal ótal margra annarra skemmtilegra dagskrárliða um helgina var Orkueldhús barnanna, þar sem börnum gafst kostur á að útbúa heilsusnakk og keppni um uppvaskara ársins, þar sem hin tvítuga Erna Aðalheiður Karlsdóttir, frá Nordica hóteli, bar sigur úr býtum. Þá fór fram Íslandsmót kaffibarþjóna og varð Ingibjörg Jóna Sigurðardóttir hlutskörpust þar. Marta Sif Ólafsdóttir sigraði hins vegar í mjólkurlist.

Á Ferðatorginu voru fjölbreyttar uppákomur og skemmtiatriði og á tíu mínútna fresti voru dregnir út vinningar í svokölluðum Landsleik sem gestum bauðst að taka þátt í. Guðrún Birna Brynjarsdóttir, sem sá um leikinn, og Hildur Jónsdóttir, frá Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisins, sögðu Íslendinga vera að vakna til vitundar um að þeir væru ferðamenn í eigin landi og þyrftu ekki endilega að fara til útlanda til þess að ferðast. Á sýningunni væri lögð áhersla á að fólk kynnti sér þá möguleika sem í boði væru og nýtti sér upplýsingamiðstöðvar um land allt við skipulagningu ferðalaga. Þær sögðu Íslendinga þurfa að kynnast landinu sínu betur og þannig yrði það líka boðlegra erlendum ferðamönnum. Í Landsleiknum þurftu gestir að svara spurningum um landið sitt og má ætla að gestir hafi farið fróðari heim.