HALDINN verður stofnfundur samtakanna Hollvinir Grensásdeildar næstkomandi miðvikudag, í safnaðarheimili Grensáskirkju í Reykjavík kl. 20.

HALDINN verður stofnfundur samtakanna Hollvinir Grensásdeildar næstkomandi miðvikudag, í safnaðarheimili Grensáskirkju í Reykjavík kl. 20.

Það eru bæði núverandi og fyrrverandi sjúklingar deildarinnar, aðstandendur og vinir þeirra og starfsfólk tengt deildinni fyrr og nú sem standa að samtökunum. Tilgangur þeirra er að styðja við, efla og styrkja endurhæfingarstarfsemi þá sem fram fer á Grensásdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss.

"Margir þarfnast endurhæfingar eftir að hafa lent í sjúkdómum eða slysum. Þar hefur Grenásdeild verið í fararbroddi frá því að deildin tók til starfa 1973. Fjárskortur hefur þó löngum hamlað starfseminni og legurúmum hefur ekki fjölgað í áranna rás þó að íbúum landsins hafi fjölgað um 40% og meðalaldur hækkað, sem allt hefur leitt til enn meiri hlutfallslegrar þarfar fyrir endurhæfingu," segir í kynningu á stofnfundi samtakanna.

Erfið aðstaða og bið

Bent er á að að því slepptu að sundlaug var bætt við á níunda áratug, hefur önnur sjúkra- og iðjuþjálfunaraðstaða ekki verið aukin.

"Fara því saman mikil og vaxandi þrengsli og erfið aðstaða bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk.

Sárast er þó að fjöldi fólks verður að bíða mánuðum saman, oft við miklar kvalir og skerðingu líkamlegrar getu vegna þess að það kemst ekki í endurhæfingu, en geta í bæklunarskurðaðgerðum, þar með talin liðaskipti, Landspítala - háskólasjúkrahúss, sem einnig þarf að auka, er nú meiri en afkastagetu Grensásdeildar nemur."