Hjónin Elín Margrét Erlingsdóttir og Björn Thoroddsen við hús sitt í Engimýri í Garðabæ.
Hjónin Elín Margrét Erlingsdóttir og Björn Thoroddsen við hús sitt í Engimýri í Garðabæ. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Garðbæingar segja gjarnan að hvergi sé betra að búa en í Garðabæ, fyrst og fremst vegna staðsetningar bæjarins, umhverfisins og íbúanna.
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

Garðbæingar segja gjarnan að hvergi sé betra að búa en í Garðabæ, fyrst og fremst vegna staðsetningar bæjarins, umhverfisins og íbúanna. "Það er svo rólegt hérna og afslappað, góðir nágrannar og stutt í allt," segja hjónin Björn Thoroddsen og Elín Margrét Erlingsdóttir sem hafa búið með þremur börnum sínum í Engimýri í um sex ár.

Draumahúsið

Mikil umferð er alla jafna um Hafnarfjarðarveg en ekki ber á henni þegar komið er í Mýrar Garðabæjar. Þetta afslappaða andrúmsloft kveikti í Birni og Elínu eftir að þau höfðu búið á Álftanesi í um áratug. Garðabær hafði líka annað aðdráttarafl. Strákarnir þeirra þurftu að sækja nám í gagnfræðadeild Garðaskóla í Garðabæ og Elín vann í sparisjóði Hafnarfjarðar á Garðatorgi. Auk þess spilaði gítarleikarinn Björn mikið í Reykjavík og því var styttra fyrir hann að fara í vinnuna úr Garðabæ en frá Álftanesi.

"Praktískar ástæður réðu mestu um flutninginn hingað," segir Elín og Björn tekur í sama streng. "Ég gekk oft um hverfið og hreifst strax af þessu húsi en auðvitað var það ekki til sölu," heldur Elín áfram. "Samt sem áður var þetta eina húsið, draumahúsið, enda sérstaklega vel í sveit sett. Skólarnir í göngufæri, vinnan í göngufæri, og þegar okkur var sagt að til stæði að selja það keyptum við það samdægurs. Húsið var því aldrei auglýst til sölu."

Vinnur við tónlistina heima

Björn er þekktur tónlistarmaður og við flutninginn í Garðabæ breyttist margt í tónlistarsköpun hans. Fyrir bragðið varð hann meira áberandi en áður, eftirsóttari beggja vegna Atlantshafs og viðurkenningarnar létu ekki á sér standa. Í því sambandi má nefna að hann var Bæjarlistamaður Garðabæjar 2002 og Tónlistarhópurinn Guitar Islancio, sem Björn er í ásamt Gunnari Þórðarsyni og Jóni Rafnssyni, var valinn tónlistarhópur Reykjavíkur 2000-2001 og djassflytjandi ársins 2003. Kanadíska djasstríóið Cold Front sem Björn stendur að ásamt Richard Gillis og Steve Kirby var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2005 í þremur flokkum og tók Björn á móti einum verðlaunum á verðlaunahátíðinni í lok janúar.

"Þegar við fluttum hingað breytti ég bílskúrnum fljótlega í hljóðver," segir hann. "Hljóðverið er helsti vinnustaðurinn minn, hér æfi ég mig einn og með öðrum og hér tökum við upp plötur. Það á mjög vel við mig að búa við hliðina á vinnustaðnum. Ekki er innangengt í hljóðverið og því þarf ég að fara út úr húsi á hverjum degi. Rétt eins og flestir starfsmenn þarf ég að fara í úlpu ef þannig viðrar þegar ég fer í vinnuna og það virkar bara sem innblástur."

Í hljóðverinu við Engimýri hafa verið teknar upp margar plötur og þessa dagana er Björn að vinna að diski sem verður gefinn út samfara Listahátíð í maí. "Verkefnið heitir Vorvindar og um er að ræða gömlu íslensku sönglögin sem Andrea Gylfadóttir syngur í nýjum búningi og verður frumflutt á Listahátíð," segir Björn.

Elín segir að það hafi líka verið mjög gott að vita af Birni heima þegar börnin voru að koma heim úr skólanum. "Það er mikið öryggi fólgið í því fyrir börnin að vita af einhverjum heima," segir hún.

Björn segir að tónlistarmenn vilji gjarnan vinna heima og aukin tækni geri þeim það frekar kleift en áður. "Tækin eru öll fyrirferðarminni en áður og vinnsla fer mikið fram í tölvum," segir hann. "Pétur Friðrik, listmálari og frændi minn, var með sérsmíðaða vinnustofu, og þannig er ástatt um marga listamenn. Það er gott að hafa tækifæri til þess að vinna heima svo framarlega sem það hefur ekki stöðnun í för með sér. En þá er líka upplagt að fara annað, skipta um umhverfi í einhvern tíma, og ég geri mikið af því."

Alltaf sólarmegin

Elín og Björn ólust bæði upp í Hafnarfirði en bjuggu fyrst saman á Fálkagötu í Reykjavík. Þaðan vildu þau fara aftur í Hafnarfjörð en enduðu á Álftanesi. "Við fengum einbýlishús á Álftanesi fyrir sama verð og íbúð kostaði í Hafnarfirði," segir Elín. "Álftanesið var mjög fámennt á þessum tíma og göturnar voru ekki einu sinni upplýstar en okkur leið vel þar eins og alls staðar þar sem við höfum búið," segir Björn.

Ró svífur yfir vötnunum í Engimýrinni og Björn og Elín njóta kyrrðarinnar. Hins vegar er elsti sonurinn fluttur að heiman og húsið of stórt fyrir þau. Þau ætla því að minnka við sig en vita ekki hvað tekur við. "Okkur hefur liðið sérlega vel hérna og víst er að við förum ekki langt," segir Björn. "Þetta hefur verið okkar heimili og sumarhús með sólpalli og lokuðum, blómlegum garði," bætir Elín við. "Hér er vissulega gott að vera."