Hildur Helga Sigurðardóttir heilsar Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarfulltrúa. Við hlið Hildar eru Þorvaldur Gylfason og Gauti Kristmannsson.
Hildur Helga Sigurðardóttir heilsar Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarfulltrúa. Við hlið Hildar eru Þorvaldur Gylfason og Gauti Kristmannsson. — Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is "MIÐBORG Reykjavíkur hefur lengi skort svigrúm til vaxtar.
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is

"MIÐBORG Reykjavíkur hefur lengi skort svigrúm til vaxtar. Á sama tíma og úthverfin hafa vaxið hefur miðjan í borginni staðið í stað," að því er fram kom í máli Péturs Ármannssonar arkitekts á borgaraþingi sem virk íbúasamtök í Reykjavík stóðu að í Ráðhúsinu á laugardag. Yfirskrift þingsins var Blessuð sértu, borgin mín en á því var meðal annars rætt um íbúalýðræði, umferðarmál, sjálfbæra þróun, skipulagsmál, almenningssamgöngur og sjálfsmynd Reykvíkinga.

Í erindi sínu sagði Pétur að brýnt væri skoða hugmyndir um miðbæ Reykjavíkur í nýju ljósi og endurmeta samband hans við aðra hluta borgarinnar. "Til að svo megi verða þarf að nýta miklu stærra svæði en hingað til hefur verið gert. Áður en tekin er ákvörðun um útfærslu byggðar í Vatnsmýrinni er nauðsynlegt að horfa á borgina í heild sinni, skoða virkni hennar og innbyrðis tengsl ólíkra hluta," sagði Pétur. Vandamálin sem hinu óbyggða svæði í Vatnsmýrinni væri ætlað að leysa kynnu að leynast utan þeirra marka sem þar væru en ekki innan. Ef markmiðið með uppbyggingu í Vatnsmýri væri að efla gamla miðbæinn þyrfti að byrja á að huga að tengingu við Kvosina og Laugaveginn.

Smáralindin miðja höfuðborgarsvæðisins?

Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður flutti erindi á þinginu sem nefndist Reykjavík í öðru ljósi. Ræddi hann meðal annars um fyrirhugaða Sundabraut og sagði nokkuð ljóst að yrði "farin svokölluð innri leið verður svæðið í kringum Smáralindina miðja höfuðborgarsvæðisins, en verði ytri leiðin farin verði miðjan nánast áfram þar sem hún er nú". "Hvers vegna ekki að sviðsetja þessa möguleika og leyfa íbúum höfuðborgarsvæðisins að velja?" spurði Hrafn. Það kynni að vera ágætt að miðja höfuðborgarsvæðisins flyttist í Smáralind en það ætti þá að gera vegna þess að menn vildu það, en ekki óvart.

Þá sagði Hrafn frá lauslegri rannsókn sem hann og aðstoðarmenn hans hefðu gert þegar unnið var að mynd Hrafns, Reykjavík í öðru ljósi. Þeir hefðu farið víða og spurt fólk hvort því þætti gott að búa þar sem þar byggi. Flestir hefðu verið ánægðir með búsetustað sinn, en þegar fólk var spurt hvort það vildi búa annars staðar í borginni, hefði verið ráðandi í svörum fólks að það óskaði þess að búa nær miðborginni. Spurt hvers vegna það gerði það ekki hefðu margir nefnt að það væri dýrara.

560 bílar á hverja 1.000 íbúa

Þorvaldur Gylfason hagfræðingur fjallaði um borgarhagfræði á þinginu. Þar kom meðal annars fram að Reykjavík væri eiginlega dreifbýlasta höfuðborg heimsins. "Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni tekur einn sjöunda part af flatarmáli Reykjavíkur innan Elliðaáa," sagði Þorvaldur. Um væri að ræða dýrmætasta hluta borgarlandsins sem gæti hýst tugi þúsunda íbúa og vinnandi fólks og gert Reykjavík að gönguborg. Slíkt myndi spara ógrynni fjár. Aksturskostnaður sem lagður væri á borgarbúa að óþörfu væri gríðarlegur. Þá væri ekki bara átt við rekstrarkostnað ónauðsynlegra bíla heldur einnig stofnkostnað. "Við eigum um 560 bíla á hverja 1.000 íbúa í okkar litla samfélagi," sagði Þorvaldur og benti á að Dönum dygðu 360 bílar á 1.000 íbúa.