New York. AP. | Rannsókn á áhrifum fyrirbæna á hjartasjúklinga bendir til þess að heilsa þeirra hafi ekki batnað eftir að ókunnugt fólk bað fyrir þeim.

New York. AP. | Rannsókn á áhrifum fyrirbæna á hjartasjúklinga bendir til þess að heilsa þeirra hafi ekki batnað eftir að ókunnugt fólk bað fyrir þeim.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að á meðal þeirra sjúklinga, sem vissu að beðið var fyrir þeim, voru ýmsir fylgikvillar hjartasjúkdóma ívið algengari en á meðal þeirra sem vissu aðeins að hugsanlega yrði beðið fyrir þeim. Rannsóknarmennirnir sögðust ekki vita hvernig á þessu stæði.

Nokkrir vísindamenn sögðust vera undrandi á því að ráðist skyldi í slíka rannsókn þar sem vísindunum væri "ekki ætlað að rannsaka hið yfirnáttúrulega".

Rannsóknin kostaði 2,4 milljónir dollara, sem samsvarar um 170 milljónum króna. Sérfræðingar sögðu þetta viðamestu rannsókn til þessa á áhrifum fyrirbæna á sjúklinga.

Vísindamennirnir sem rannsökuðu mátt bænarinnar lögðu áherslu á að rannsóknin svaraði því ekki hvort Guð væri til eða svaraði fyrirbænum.

Rannsóknin náði til 1.800 sjúklinga á sex sjúkrahúsum í Bandaríkjunum. Templeton-stofnunin, sem hefur styrkt ýmsar vísindarannsóknir sem tengjast trúarbrögðum, fjármagnaði rannsóknina ásamt einu sjúkrahúsanna. Niðurstöðurnar verða birtar í næsta tölublaði tímaritsins American Heart Journal sem kemur út á þriðjudag.