FORSVARSMENN norska kvennahandknattleiksliðsins Byåsen frá Þrándheimi ætla að hitta danska handknattleiksþjálfarann Önju Andersen í næstu viku og ræða við hana um möguleika á að taka að sér þjálfun liðsins sem endaði í 2. sæti í norsku deildinni í ár.

FORSVARSMENN norska kvennahandknattleiksliðsins Byåsen frá Þrándheimi ætla að hitta danska handknattleiksþjálfarann Önju Andersen í næstu viku og ræða við hana um möguleika á að taka að sér þjálfun liðsins sem endaði í 2. sæti í norsku deildinni í ár. Leikmenn liðsins eru hinsvegar lítt hrifnir af hugmyndum stjórnarinnar.

Andersen hefur vakið mikla athygli fyrir framkomu sína í leikjum með danska liðinu Slagelse, en nýverið var hún úrskurðuð í langt keppnisbann, eftir að hafa tekið lið sitt út af vellinum til þess að mótmæla því að hún hafði fengið rautt spjald frá dómurum leiksins. Andersen fékk eins árs keppnisbann og að auki má hún ekki stjórna liðinu í Evrópukeppni fram til 30. júní.

Í sjónvarpsþætti í Danmörku s.l. föstudag sagði Andersen að hún væri að vinna í því að stofna deild sem væri skipuð allt að 6 liðum frá mismunandi löndum. En Andersen hefur lýst yfir því að hún ætli sér að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að vinna gegn stjórn danska handknattleikssambandsins. Með nýrri "Ofurdeild" væri markmiðinu náð og er Andersen ekki í vafa um að deildin muni vekja mikla athygli.