SAMTÖKIN Víðfari - BEST á Íslandi standa fyrir málþinginu Umhverfismál í byggingariðnaði í stofu 158 í VRII við Hjarðarhaga kl. 13 til 16 miðvikudaginn 5. apríl nk.

SAMTÖKIN Víðfari - BEST á Íslandi standa fyrir málþinginu Umhverfismál í byggingariðnaði í stofu 158 í VRII við Hjarðarhaga kl. 13 til 16 miðvikudaginn 5. apríl nk.

Ýmsum spurningum verður reynt að svara á málþinginu eins og til dæmis: Hvar stöndum við í dag og hvað er unnt að gera til að umhverfi okkar verði heilsusamlegra? Getum við byggt af sömu gæðum en með minni umhverfisáhrifum? Hver eru verkefnin framundan hér á landi og eru þau hin sömu og annars staðar í heiminum?

Dr. Björn Marteinsson frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins (RB) flytur erindi um orkunýtingu húsa. Dr. Ólafur Wallewik (RB) nefnir erindi sitt Umhverfisvæn steinsteypa. Dr. Harpa Birgisdóttir hjá Línuhönnun fjallar um notkun vistferilsgreininga við hönnun bygginga. Frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar koma Lúðvík Gústafsson og Erpur Snær Hansen og flytja erindi um umhverfismál í kringum niðurrif bygginga.

Víðfari er nýlega stofnað félag stúdenta úr raunvísinda- og verkfræðideildum Háskóla Íslands. Það er áheyrnarfulltrúi í Evrópusamtökum BEST (Board of European Students of Technology) og stefnir að fullri aðild fyrir lok apríl. Samtökin samanstanda af 70 félögum í jafnmörgum háskólum í tæplega 30 löndum. Næsta verkefni á döfinni hjá félaginu er tveggja vikna námskeið um vetni og jarðvarma, sem verður í lok júní fyrir 25 stúdenta úr systursamtökunum.