HEIMILI og skóli - landssamtök foreldra hafa skrifað undir samstarfssamninga við Sparisjóðina á Íslandi, Eymundsson og VÍS, en í þeim felst að fyrirtækin skuldbinda sig til að styðja við starfsemi samtakanna næstu þrjú ár.

HEIMILI og skóli - landssamtök foreldra hafa skrifað undir samstarfssamninga við Sparisjóðina á Íslandi, Eymundsson og VÍS, en í þeim felst að fyrirtækin skuldbinda sig til að styðja við starfsemi samtakanna næstu þrjú ár. Með samningnum lýsa fyrirtækin þrjú, VÍS, Sparisjóðirnir og Eymundsson, því yfir að þau vilji eiga samstarf við samtökin um að efla foreldrafræðslu og forvarnir í skólum og á heimilum með þátttöku í ýmsum fræðslu- og forvarnarverkefnum á vegum samtakanna. Þannig gefi fyrirtækin skýr skilaboð til samfélagsins um að þau láti sig varða hagsmuni foreldra og barna í landinu og eigi þannig samleið með samtökunum.

Heimili og skóli hafa það að meginmarkmiði að efla foreldra og fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu, veita þeim stuðning og hvatningu til virkrar þátttöku í skólasamfélaginu og vera málsvari þeirra gagnvart stjórnvöldum í málefnum er varða skólasamfélagið.

Að sögn forsvarsmanna Heimila og skóla gerir stuðningur fyrirtækjanna samtökunum kleift að sinna enn betur því hlutverki sínu að miðla upplýsingum um gildi foreldrasamstarfs og stuðla að uppbyggingu öflugs samstarfs foreldra og skóla á landsvísu.